Ungmennin, með Kristu Sól Guðjónsdóttur, forseta skólafélagsins í broddi fylkingar, marseruðu úr skólanum og niður á Ráðhústorg bæjarins þar sem sungnir voru baráttusöngvar.
Mótmælendur sóttu hart að Ásmundi Einari Daðasyni menntamálaráðherra, sem kynnti sameiningarfyrirætlanir á fundi í gær. „Ásmundur segðu af þér“ og „Ásmundur einræðisherra“ voru á meðal áletrana á skiltum nemenda, sem var mörgum ansi heitt í hamsi á Ráðhústorginu í dag.
Ásmundur, auk skólameistara beggja skóla, kynnti áætlanir sínar á fundi með nemendum og starfsfólki skólanna í Hofi í gær. Þar sögðust skólameistararnir jákvæðir fyrir sameiningunni.
Krista Sól sagði í samtali við Vísi í dag að nemendur væru í sjokki eftir fréttirnar um fyrirhugaða sameiningu. Þau óttist að rótgrónar hefðir skólans muni glatast með sameiningu. Þá sagði hún það ótækt að einungis einn framhaldsskóli standi frammi fyrir ungmennum á Akureyri í framtíðinni.
Að sögn Kristu virðist stjórn nemendafélags VMA þó ekki jafnafgerandi í afstöðu sinni til sameiningar. Upplifun hennar eftir fundinn í gær er að þeim sé nokkuð sama um málið.