Skoðun

Þá er það #kennaravikan

Magnús Þór Jónsson skrifar

Þann 5. október ár hvert er haldið upp á Alþjóðadag kennara. Frá árinu 1994 hefur kennaradagurinn verið haldinn hátíðlegur að frumkvæði UNESCO, UNICEF og Alþjóðasamtaka kennara EI (Education International). Innan alþjóðasamtakanna eru samtök evrópskra kennarafélaga, samtök sem bera skammstöfunina ETUCE, og er Kennarasamband Íslands virkt í starfi þeirra.

ETUCE leggja að þessu sinni upp með að vikuna alla eigi kennarastarfið skilið athygli um leið og kynnt eru þau tíu meginatriði sem samtökin telja vera lykilatriði í starfi kennarans, mikilvæg til að starfið verði eftirsóknarvert, efli vellíðan og starfsanda sem leiðir af sér góðan árangur og auki gæði menntunar.

Þau eru:

1.Tryggja faglegt sjálfstæði og akademískt frelsi skólafólks.

2.Hafa samvinnu og sameiningu að leiðarljósi við störf innan menntastofnana og ‐kerfa.

3.Bjóða mannsæmandi laun og koma í veg fyrir launamisrétti.

4.Tryggja góð og traust vinnuskilyrði og stuðla að velferð kennara.

5.Stýra vinnuálagi og vinnutímum.

6.Skapa vinnuumhverfi sem laðar að nýliða og stuðlar að því að starfsfólk haldist í starfi.

7.Tryggja rétt til vandaðrar kennaramenntunar án aðgreiningar og stöðugrar þróunar í starfi.

8.Fást við áskoranir á sviði jafnréttismála innan kennarastéttarinnar.

9.Stuðla að virkri og faglegri umræðu.

10.Valdefla kennarastéttina.

Við hjá Kennarasambandi Íslands tökum virkan þátt í kennaravikunni og er hápunktur vikunnar Skólamálaþing okkar þann 4. október. Yfirskrift þingsins þetta árið er: „Með opnum örmum, hvernig tökum við sem best á móti nemendum af erlendum uppruna“, verkefni sem hefur stöðugt aukið vægi innan íslenskra skóla.

Atriðin 10 frá ETUCE tala beint inn í íslenskan raunveruleika og í kennaravikunni er ætlun okkar hjá KÍ að varpa ljósi á þau á meðal félagsfólks okkar sem og í samfélaginu öllu. Við munum á netmiðlum okkar birta samtöl við lykilfólk í íslenskum stjórnmálum um tíu punkta ETUCE, á sama tíma og við skorum á alla kennara að ræða þau sín á milli á kaffistofunum og í sínu nærumhverfi, kennarastarfinu til heilla.

Kennarastarfið er göfugt starf. Menntun er undirstaða hvers samfélags og það eru forréttindi að sinna því starfi að efla sitt samfélag. Í kennaravikunni treysti ég því að við sem sinnum því starfi eflum sýnileika starfsins okkar með fréttum af öllu því jákvæða sem býr í íslenskum skólum og á meðal nemenda okkar. Ég skora á okkur að nýta samfélagsmiðla á jákvæðan hátt, við leggjum upp með nota myllumerkið #kennaravikan í þeim fréttum sem við ætlum að birta næstu dagana og ég skora á kennara að nota það einnig á næstu dögum.

Til hamingju með daginn á fimmtudaginn allir kennarar!

Höfndur er formaður Kennarasambands Íslands




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×