Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefnin í vinnunni.
Hvenær vaknar þú á morgnana?
Haganlega útfært „vekjaraklukkuhandrit“ er eiginlega það eina sem dugar á B-týpu fjölskylduna mína.
Ég sef með suðandi græju með sjávarnið í eyrum.
Græjan hringir kl. 07:05.
Svo góla vekjaraklukkur barnanna kl. 07:10 og loks byrjar vara-vekjarinn minn kl. 07:15, svona til að gulltryggja að enginn freistist til að sofna aftur.
Allt á langtímastillingu, að sjálfsögðu.
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég byrja yfirleitt á því að smeygja mér í einstaklega ósmekklega en gríðarlega hlýja „kósípeysu”. Við erum að tala um hettupeysu í súper-yfirstærð, úr þykku flísefni með stjörnumynstri sem glóir í myrkri. Myndi seint láta sjá mig í henni úti á götu, en fjölskyldan fær að njóta þessa fágaða stíls í morgunsárið.
Svo smellum við smá tónlist á fóninn, til þess að endanlega vekja alla á heimilinu. Stundum hresst, en yfirleitt eitthvað rólegt og fallegt. Þegar maður og börn eru farin út í daginn þá freista ég þess yfirleitt að ná stuttri söngæfingu, en ég er í námi í klassískum söng við Söngskóla Sigurðar Demetz. Svo hjóla ég yfir á Tvist í Þórunnartúni, fæ mér fyrsta kaffibolla dagsins þar og tek um leið morgunspjallið við fólkið á stofunni. Alltaf um nóg að ræða á Tvist.
Hvaða tískuslys getur þú nefnt frá unglingsárum sem er þér enn minnistætt?
„Úff, í 8. bekk þótti, að minnsta kosti mér, svaka töff að ganga í skóm úr Gallabuxnabúðinni sem voru með svakalega þykkum „platform-sóla“.
Trúðaskórnir, eru þeir kallaðir í seinni tíð. Þeir voru ekki bara háir, heldur líka breiðir, litríkir og níðþungir. Vægast sagt í hrópandi ósamræmi við píslina sem ég var þá. Ég leit út eins og einhver teiknimyndapersóna.”

Hvaða verkefni ertu helst að vinna í þessa dagana?
„Tvist hefur átt í frábæru samstarfi við Krabbameinsfélagið á árinu, fyrst með herferð fyrir Mottumars og svo aftur núna fyrir Bleiku slaufuna, sem ég er búin að vera á bólakafi í undanfarið. Bleikur október var einmitt að klárast og allir í skýjunum yfir frábærum árangri sem náðist með átakinu. Meistarakúrs Strætó er sömuleiðis í fullum gangi, endurmörkun Holtagarða, jólaherferð Póstsins svo fátt eitt sé talið. Jólin eru auðvitað löngu komin í auglýsingabransanum.Svo er ég almennt með puttana í ótalmörgum verkefnum í mínu daglega starfi; vasast í hugmyndum og hönnun fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina, í samvinnu við yndislegan hóp hæfileikafólks á Tvist.”
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Á Tvist höfum við alla tíð verið 100% stafræn í utanumhaldi verkefna. Við lítum á forrit eins og Asana, Harvest og Slack sem hluta af teyminu okkar. Það gefur mikla öryggistilfinningu að vita að öll verkefni, með skilafrestum og tilheyrandi upplýsingum, er að finna á vísum stað.
En auðvitað er ég líka með mína persónulegu „to-do lista” til viðbótar.
Til dæmis þá skissa ég og krassa í litlar bækur þegar þannig liggur á mér og handskrifa punkta á fundum til þess að vera ekki með augun sífellt á tölvuskjá.
Notes forritið í vinnutölvunni og símanum finnst mér einnig algert þarfaþing bæði fyrir vinnuna á Tvist og annað lífsins bras.
Ég nota Notes meðal annars til þess að safna hlekkjum og skjáskotum með innblæstri og punkta niður hugmyndir fyrir verkefni.”
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
„Ég hef alla tíð verið nátthrafn, alltaf að vesenast eitthvað á kvöldin. Hef í gegnum tíðina ekki fundið sérlega mikið fyrir því að sofna seint. En ég er víst ekki undanskilin því að eldast og finnst ég núorðið vera áberandi betri týpa á daginn ef ég fer að sofa fyrir klukkan ellefu á kvöldin. Átta tíma svefn er víst mikilvægur, segja þau …”