Sigurður er einn þeirra Grindvíkinga sem fóru í bæinn í dag til að sækja nauðsynjar. Var það áður en að bærinn var rýmdur af öryggisástæðum nú á þriðja tímanum.
Pallurinn á hlið
„Mér líst ekkert á þetta. Húsið er ónýtt. Pallurinn, ef þú labbar út á pallinn, þá er hann bara svona,“ segir Sigurður og gerir handahreyfingu á hlið.
Húsið er sigið?
„Já, já. Við þurftum að opna allt með kúbeinum. Við gátum ekki opnað, enga hurð. Við urðum bara að brjóta og berja.“

Lítur þetta verra út en þú áttir von á?
„Nei, þetta verður bara rutt niður held ég sko,“ segir Sigurður sem átti ekki von á því að ástand hússins yrði svo slæmt.
„Ég hugsaði það ekki. Þegar ég fór á föstudaginn sko, þá ætlaði ég að taka með mér dót. En þegar hurðirnar komu bara svona,“ segir Sigurður og veifar höndunum: „Þá hljóp ég bara út í bíl. Burt. Farinn og ég er farinn núna.“