Fyrr í dag var greint frá því að Arnarlax hefði gerst bakhjarl íslenska landsliðsins í handbolta. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að samningurinn sé að minnsta kosti til næstu þriggja ára og að með honum verði merki Arnarlax á baki allra keppnistreyja landsliða Íslands í handbolta.
Guðmundur heldur því fram að sjálfur myndi hann sem landsliðsþjálfari aldrei bera slíka auglýsingu.
„Þessi samningur milli HSÍ og Arnarlax er regin hneyksli og sýnir stórkostlegan dómgreindarskort af hálfu formanns HSÍ, Guðmundar B. Ólafssonar.“ segir Guðmundur Guðmundsson um málið á Facebook-síðu sinni.
Máli sínu til stuðnings ræðir Guðmundur um sekt Matvælastofnunar á hendur Arnalax sem nemur 120 milljónum króna.
„Arnarlax var meðal annars fyrir nokkru síðan sektað af Matvælastofnun að upphæð 120 milljón króna fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á strokfiski. Arnarlax sýndi þar fullkomið og vítavert aðgæsluleysi til skaða fyrir íslenska náttúru,“ segir hann.
„Þetta sjókvíaeldi er hörmulegur og mengandi iðnaður sem mun ganga af íslenskum náttúrulegum laxastofni dauðum.“
Guðmundur heldur því fram að það sé dapurlegt að þiggja peninga af fyrirtækinu. „Að þiggja peninga frá þessu fyrirtæki sem vill nýta sér íslenska landslið til að lappa upp á dapurlega ímynd sína er óskiljanlegt. Eitt get ég sagt að ég hefði aldrei samþykkt sem þjálfari landsliðsins á sínum tíma að bera slíka auglýsingu.“
Þess má gera að Heimsmeistaramót kvenna í handbolta hefst í næstu viku í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.