Innlent

Tót­la nýr fram­kvæmda­stjóri Barna­heilla

Árni Sæberg skrifar
Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla.
Tótla I. Sæmundsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla. Vísir/Vilhelm

Stjórn Barnaheilla hefur ráðið Tótlu I. Sæmundsdóttur í stöðu framkvæmdastjóra félagsins.

Í fréttatilkynningu um ráðninguna segir að Tótla hafi margra ára reynslu sem fræðslustjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Samtakanna ’78 og áratugsreynslu úr fjölmiðlum. Tótla sé með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi séu hluti af alþjóðasamtökunum Save the Children og vinni að réttindum og velferð barna með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi. Barnaheill séu leiðandi afl í að breyta viðhorfum og verklagi varðandi málefni barna og réttindi þeirra.

„Það eru spennandi tímar framundan hjá Barnaheillum. Félagið á langa og merkilega sögu og hefur sinnt mikilvægu hlutverki í að vinna að bættum hag barna og fjölskyldna þeirra. Ég hlakka til að vinna með þessum öfluga hópi sérfræðinga að velferð og mannréttindum barna,“ er haft eftir Tótlu.

„Við erum himinlifandi að fá Tótlu til liðs við okkur hjá Barnaheillum. Reynsla hennar, drifkraftur og þekking verða grunnurinn að framkvæmd nýrrar og metnaðarfullrar stefnu samtakanna. Breyttum heimi fylgja ný og krefjandi viðfangsefni, svo sem loftslagsbreytingar og stríð, sem hafa afgerandi áhrif á lífsskilyrði barna og ungmenna. Við erum sannfærð um að Tótla sé rétta manneskjan til að leiða þá stórsókn sem Barnaheill munu nú fara í, með það að markmiði að tryggja rétt barna til lífs, verndar, þroska og þátttöku í samfélaginu,“ er haft eftir Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, formanni stjórnar Barnaheilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×