Vísi hafa borist ábendingar um að forláta svartur Porsche Cayanne jeppi, sem nú er auglýstur til sölu á Facebook, sé ansi líkur þeim sem Kristján Einar gaf Hafdísi við mikla viðhöfn í Nauthólsvík á dögunum. Kristján Einar fékk félaga sinn til þess að taka myndskeið af því þegar hann svipti hulunni af gjöfinni og myndskeiðið hefur vakið gríðarlega athygli.
„Ertu að gefa mér Porsche?“ spyr Hafdís, greinilega vel að sér hvaða bílategund um ræðir þegar hún ber svartan jeppann augum.
„Ég er að gefa þér fokking Porsche!“ svarar Kleini að bragði.
Var bara að grínast
Þar sem gjöfin vakti gríðarlega athygli ákvað blaðamaður að slá á þráðinn til Kleina og spyrja hvort bíllinn væri sá sami og nú er auglýstur til sölu fyrir 6,29 milljónir króna á Facebook. Kleini baðst undan viðtali og bað um fyrirspurn í tölvupósti.

Í skriflegu svari sínu við fyrirspurn Vísis segir Kleini rétt að bíllinn sé til sölu.
„Ég spurði Hafdísi hvað hún vildi í jólagjöf og sendi hún mér mynd af þessum bíl svo ég keypti hann og kom henni á óvart. Hún var í miklu sjokki og þorði ekki að segja mér að þetta væri ekkert bíllinn sem hana langaði í enda sendi hún þetta í einhverju djóki,“ segir hann.
Hann muni því rúnta um á bílnum þar til hann selst og hann finnur draumabíl Hafdísar.
Huldumaður selur Mözduna líka
Porsche-inn er auglýstur til sölu á Facebook af seljanda sem kallar sig Braskara Jóa. Kleini segist ekki vera huldumaðurinn Braskari Jói en að hann þekki þó til mannsins sem heldur úti aðganginum. Hann hafi af og til fengið að lauma inn auglýsingum á aðganginn.
Meðal þess sem Braskari Jói reynir að braska með þessa dagana er Mazda CX 9, sem falur er fyrir aðeins 950 þúsund krónur. Kleini staðfesti grun blaðamanns um að það væri Mazdan sem þau Hafdís og Kleini minnast á í myndskeiðinu umtalaða.
„Það er umtalaða Mazdan hennar sem ég fékk leyfi að losa okkur við enda passar hún ekki við flotann á heimilinu.“
Gjaldþrota síðan í mars
Fram kom í dómi Landsréttar síðastliðinn föstudag að Hafdís hefði verið úrskurðuð gjaldþrota í mars síðastliðnum. Með dómi Landsréttar var hún dæmd til að greiða tíu milljónir króna auk dráttarvaxta vegna kaupa á líkamsræktarstöð.
Fjölmargir lesendur Vísis vöktu athygli á því að það væri ekki skynsamlegt að gefa gjaldþrota einstaklingi margra milljóna króna bíl. Þau áform virðast nú úr sögunni, nema draumabíllinn sem Kleini leitar að kosti hann líka margar milljónir.