Chelsea tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum enska deildarbikarsins í knattspyrnu með sigri gegn Newcastle í vítaspyrnukeppni.
Gestirnir í Newcastle tóku forystuna á 16. mínútu þegar Callum Wilson slapp einn í gegn eftir röð mistaka í vörn Chelsea. Enski framherjinn þakkaði pent fyrir sig og kláraði vel framhjá Djordje Petrovic í marki Chelsea.
Það stefndi allt í að þetta yrði eina mark leiksins, en varamaðurinn Mykhailo Mudryk reyndist hetja Chelsea þegar hann kom liðinu í vítaspyrnukeppni með marki á annarri mínútu uppbótartíma og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara.
Cole Palmer og Conor Gallagher skoruðu úr fyrstu tveimur spyrnum Chelsea og Callum Wilson gerði slíkt hið sama úr fyrstu spyrnu Newcastle. Kieran Trippier misnotaði hins vegar spyrnu sína sem fór vel framhjá markinu.
Christopher Nkunku skoraði úr þriðju spyrnu Chelsea áður en Bruno Guimaraes skoraði úr þriðju spyrnu gestanna frá Newcastle. Líkt og liðsfélagar sínir nýtti Mykhailo Mudryk spyrnu sína af miklu öryggi, en það var að lokum markvörðurinn Djordje Petrovic sem tryggði Chelsea sæti í undanúrslitum þegar hann varði spyrnu Matt Ritchie með miklum tilþrifum.
SCENES.
— Chelsea FC (@ChelseaFC) December 19, 2023
Niðurstaðan því 4-2 sigur Chelsea í vítaspyrnukeppninni eftir 1-1 jafntefli í venjulegum leiktíma. Chelsea er þar með á leiðinni í undanúrslit á kostnað Newcastle, en Fulham og Middlesbrough tryggðu sér einnig sæti í undanúrslitum fyrr í kvöld.