Drög að niðurröðun leikja KSÍ voru birt í dag. Áætlað er að keppni í Bestu deild kvenna hefjist sunnudaginn 21. apríl þegar meistarar Vals taka á móti Þór/KA.
Annað árið í röð verður liðunum í Bestu deild kvenna skipt í efri og neðri hluta að loknum 18 umferðum, og er áætlað að allra síðasta umferð mótsins fari fram 5. október.

Hjá körlunum verður deildinni skipt upp í september og spilað fram til 26. október, en í ár lauk keppni talsvert fyrr eða 8. október.
Stefnt að bikarúrslitaleikjum í ágúst
Vestri spilar í fyrsta sinn í efstu deild karla og byrjar á útileik gegn Fram í Grafarholti. Fyrsti leikurinn á Olís-vellinum á Ísafirði verður svo á milli Vestra og KA laugardaginn 20. apríl, samkvæmt drögunum.
Í frétt á vef KSÍ segir að rétt sé að hafa í huga að um drög að niðurröðun sé að ræða og að viðbúið sé að verulegar breytingar verði gerðar á niðurröðun leikja áður en mótin verði staðfest.
Úrslitaleikirnir í Mjólkurbikarnum eiga að fara fram í ágúst, þann 16. ágúst hjá konunum en 23. ágúst hjá körlunum, en til vara er þó 20. september nefndur. Keppni í Mjólkurbikarnum hefst í apríl.