Mikið álag hefur verið á Landspítalanum undanfarið og sjúklingar þurft að liggja á göngum vegna þrengsla. Gripið hefur verið til ýmissa ráðstafana vegna þessa meðal annars grímuskyldu.
Eitt af því sem hefur áhrif á stöðuna er hversu erfiðlega gengur að útskrifa hóp aldraðra sjúklinga á spítalanum sem þurfa önnur úrræði líkt og hjúkrunarheimili. Hópurinn sem bíður nú á spítalanum telur á milli áttatíu og hundrað manns sem er svipaður fjöldi og þurfti að liggja á göngum spítalans þegar mest var í vikunni.
„Það er svolítið verið að dæma fólk úr leik með því að láta það bíða á Landspítalanum vikum og mánuðum saman eftir betra úrræði. Þetta er okkar besta fólk sem að öllum þykir vænt um sem þarf að eyða dögunum á náttfötum og borða allar máltíðar á rúmstokknum og lifa við það að vera flutt fram og til baka á deildinni eftir því sem að hentar hverju sinni. Það sem er kannski svona uggvænlegt er að við sjáum ekki alveg svona einhverja stóra lausn til frambúðar,“ segir Margrét Guðjónsdóttir starfandi framkvæmdastjóri öldrunar og endurhæfingar á Landspítalanum.
Hún segir marga þurfa dvelja lengi á spítalanum.
„Fólk getur verið alveg marga mánuði og ég hef séð fólk upp undir ár búið að bíða eftir plássi. Þetta fólk á miklu betra skilið og við viljum ekki að á síðustu metrunum þá sé fólk orðið eitthvað vandamál. Það er bara ekki fallega farið með fólk.“
Hún segir að kerfisbreyting þurfi að eiga sér stað til að ná tökum á vandamálinu og mögulega líta til hinna Norðurlandanna þar sem betri árangur hafi náðst.
„Við erum með ábyrgð á þessum málum mjög margskipta og margir að sinna þessu. Þannig að okkur svona heildstætt hefur ekki tekist að finna lausn í okkar samfélagi. Ekki enn þá.“