Willum og félagar voru án sigurs í seinustu fimm deildarleikjum þar sem liðið hafði aðeins náð í tvö stig af fimmtán mögulegum.
Gestirnir í Go Ahead Eagles byrjuðu þó af miklum krafti í dag og Willum kom liðinu yfir strax á sjöundu mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Bobby Adekanye. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.
Victor Edvardsen tvöfaldaði svo forystu liðsins á 51. mínútu með marki úr vítaspyrnu og þar við sat.
Niðurstaðan því nokkuð öruggur 2-0 útisigur Go Ahead Eagles sem nú situr í sjötta sæti deildarinnar með 26 stig eftir 18 leiki, einu stigi meira en Sparta Rotterdam sem situr í áttunda sæti.