Skoðun

Smáhýsin, hvernig hefur gengið?

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Á þriðjudaginn næstkomandi 6. febrúar er fundur í borgarstjórn Reykjavíkur. Að beiðni Flokks fólksins hefur verið sett á dagskrá umræða um hvernig gengið hefur með smáhýsin í Reykjavík nú þegar nokkur reynsla er komin á þau. Smáhýsin eru búsetuúrræði á vegum velferðarsviðs Reykjavíkur og eru hugsuð fyrir fólk sem hefur verið heimilislaust og þarf mikla þjónustu. Úrræðið er hluti af Velferðarstefnu Reykjavíkurborgar sem samþykkt var í borgarstjórn 15. júní 2021.

Flokkur fólksins óskar eftir að meirihlutinn í borgarstjórn taki þátt í að ræða um m.a. hvernig hafi almennt gengið með úrræðið, hvað hefur gengið vel, hverjir eru helstu hnökrarnir og hvernig hafa samskipti gengið milli íbúa smáhýsanna og nágranna þeirra. Einnig vill borgarfulltrúi Flokks fólksins vita hvort velferðaryfirvöld í Reykjavík ætli að fjölga enn frekar smáhýsum af þessu tagi í borgarlandinu eða hvort eigi að horfa til annars konar búsetuúrræða fyrir fólk sem á hvergi heima.

Heimilislausum ekki að fækka

Í Reykjavík eru 20 smáhýsi sem sett hafa verið upp á sex stöðum auk þriggja smáhýsa úti á Granda. Áætlað er að heildarkostnaður við hvert smáhús sé um 33 m.kr. Lóðaverð er núll. Á biðlista eftir smáhýsi eru um 100 manns. Stærsti hluti þeirra er fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Eins og þeir muna sem fylgst hafa með þróun mála og umræðunni um smáhýsin þá reyndist erfitt að finna staðsetningu/reiti fyrir þau í borgarlandinu. Ekki voru allir sáttir við að smáhýsi yrðu staðsett í þeirra hverfi en við val á staðsetningu var mikilvægt að horfa til aðgengi að allri nærþjónustu.

Flokki fólksins er umhugað um málefni heimilislausra og er það hans helsta baráttumál að berjast gegn fátækt, ójöfnuði og óréttlæti af hvers lags tagi. Það getur komið fyrir alla að lenda á götunni, heimilislaus, öðrum háður og þurfa að leita til stjórnvalda eftir grunnaðstoð. Það er skylda samfélagsins að bregðast við því kalli. Út á það gengur að samfélag.

Höfundur er oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×