Samkvæmt blaðafulltrúa Buscemi var um að ræða „tilviljanakennt ofbeldisbrot“ af hálfu vegfaranda í Manhattan-hverfi New York. Lögreglan hefur birt myndir af hinum grunaða, sem klæddur var í bláan íþróttabol, dökkar buxur og dökka derhúfu.

Lögreglu barst tilkynning um hádegi í gær, þess efnis að 66 ára gamall maður hafi orðið fyrir hnefahöggi í andlit. Sá reyndist vera Buscemi. Hann var umsvifalaust færður á sjúkrahús með glóðarauga, mar og blóðhlaupið vinstra auga.
„Steve Buscemi var fórnarlamb annarrar tilefnislausrar árásar í borginni,“ sagði í tilkynningu lögreglu en slíkt ofbeldi virðist hafa aukist undanfarið, að því er fram kemur í umfjöllun BBC. Þrátt fyrir það virðast tilkynningum um ofbeldi, á heildina litið, hafa farið lækkandi.
„Hann er heill á húfi og þakkar fyrir batakveðjur, þrátt fyrir að það sé afskaplega sorglegt að þetta hafi hent hann, á göngu um götur New York,“ segir enn fremur í tilkynningu.
Buscemi starfaði á árum áður sem slökkviliðsmaður í New York. Hann sneri sér síðar að leiklistinni og gerði garðinn frægan í þáttaröðum á borð við Broadwalk Empire, sem hann hlaut Golden globe-verðlaun fyrir, og kvikmyndi rá borð við Reservoir Dogs, Fargo og The Big Lebowski.