Skoðun

Kyrrstöðuverðbólga

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Að kæla hagkerfið, að ná niður verðbólgu og vöxtum hefur verið verkefni Seðlabankans undanfarin ár. Leiðin til þess hefur verið að hækka stýrivexti til að þrengja að ráðstöfunarfé þeirra Íslendinga sem skulda. Stærsti hluti þessa hóps er ungt fólk og millistéttin. Ungt fólk sem nýkomið er út á fasteignamarkaðinn og skuldar stóran hluta í fasteign sinni.

Hátt vaxtastig kemur líka niður á skuldugum fyrirtækjum. Veitingastaðir eru t.d. margir hverjir skuldugir og þurfa að greiða töluverðan hluta tekna sinna í vexti. Einu leiðir þeirra eru að hækka verð og/eða segja upp fólki þar sem þau hafa takmarkaða getu til að auka veltu og sölu.

Allan þennan tíma hefur verið lögð áhersla á fjölgun ferðamanna sem halda uppi neyslu í samfélaginu. Áhrif peningastefnunnar nær einungis til fólks með fasteignaláns. Það á að greiða lausnargjaldið til að ná okkur út úr klandrinu. Á sama tíma flytjum við inn ferðafólk til að halda uppi neyslunni.

Nú er svo komið að fleiri veitingastaðir fara í gjaldþrot en í Covid, verðbólgan virðist ætla að verða þrálát með háu vaxtastigi, hagvöxtur minnkar, eftirspurn eftir húsnæði þrýstir húsnæðisverði upp, ferðamönnum fækkar vegna dýrtíðar. Það lítur út fyrir það að við séum að sigla inn í ástand verðbólgu og stöðnunar, sem á ensku kallast stagflation.

Við höfum á undanförnum árum búið við þenslu og holan hagvöxt. Það þarf lítið til að setja allt á hliðina. Bankahrunið kenndi okkur það að hraður vöxtur án nægilegrar fjárfestingar í innviðum sem styður við vöxtinn skapar viðkvæmt ástand.

Það eru vonbrigði að Seðlabankastjóri skuli telja að heilbrigð fjárfesting í íbúðarhúsnæði muni ógna stöðugleikanum. Það ber öll merki þess að þar tali ráðþrota embættismaður. Aukið framboð nýrra íbúða mun flýta fyrir jafnvægi á fasteignamarkaði. Það að vilja halda framkvæmdum niðri er skammsýni þar sem of mikil hækkun á fasteignamarkaði keyrir verðbólguna áfram.

Höfuðvandinn er krónan. Í dag er hún of hátt verðlögð og dregur úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og veldur hér dýrtíð og samdrætti. Eftir einhvern tíma þarf að leiðrétta það með handafli og skapar það enn eina sveifluna.

Peningastefnan og efnahagsstefnan hafa ekki talast við í langan tíma. Auðvitað hefur það afleiðingar. Reikningurinn hefur verið sendur til ungs fólks og millistéttarinnar. Sú gjaldtaka er bæði ósanngjörn og óskynsamleg.

Hún er ósanngjörn því verið er að refsa því fólki sem minnst hefur áhrif á þensluna og minnstu getuna til að standa undir þessum byrðum. Hún er óskynsamleg þar sem hún hefur í raun miklu minni áhrif en margir telja. Þeir sem skulda lítið sem ekkert í íslenskum krónum bera engar byrðar og geta áfram aukið neyslu sína. Það sama má segja um erlenda gesti sem hingað koma og halda uppi neyslustiginu. Það að þrengja að getu millistéttarinnar og barnafjölskyldna til að hafa í sig á en hvetja síðan aðra hópa til að halda uppi neyslunni er í mínum huga klikkun.

Niðurstaðan er líka að stefna í kyrrstöðuverðbólgu (e. stagflation) sem er heimatilbúin klikkun. Sjö ára kyrrstöðupólitík endar í kyrrstöðuverðbólgu. Eða áttum við von á einhverju öðru?

Eina leiðin út úr þessu er lækkun vaxta til að hleypa súrefni í byggingageirann. Það mun valda tímabundinni þenslu en jafnvægi mun nást. Það er ljóst að yfirmenn peningamála þora ekki að taka af skarið. Það er slæmt. Framtíðarlausnin er að taka hér upp evru og tryggja varanlega samkeppnisfærni, raunverulegan stöðugleika og minnka þá gríðarlegur sóun sem krónukerfið veldur.

Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×