Nú fyrir helgi sögðum við frá erfiðri rekstrarstöðu HSÍ sem skilaði áttatíu og fimm milljóna króna tapi á síðasta ári, sér eigið fé sitt uppurið og í raun neikvætt um tugi milljóna.
Guðmundur, formaður HSÍ, var til viðtals og tók þar undir að staða sambandsins væri grafalvarleg og sagði hann að tapið að miklu leiti skýrast af góðum árangri landsliða Íslands í handbolta. Betri árangri sem fylgi ekki meira fé frá ríki og afrekssjóði ÍSÍ.
Tekjur HSÍ standa nánast í stað milli ára. Er erfitt fyrir ykkur að auka tekjurnar?
„Það er í sjálfu sér ekki mikið að selja,“ svarar Guðmundur. „Og það broslega í þessu er svo það að á síðasta ári vorum við að liggja undir ámælum á samfélagsmiðlum vegna samstarfsaðila okkar sem vildu styðja við bakið á okkur. Þá áttum við, samkvæmt einhverjum, að vera handvelja fyrirtækin sem við eigum í samstarfi við. Við sátum ámæli undir því og það er hálf broslegt í ljósi stöðunnar.“
Vísar Guðmundur þar í umræðuna sem spratt upp í tengslum við samstarfssamninga HSÍ við umdeild fyrirtæki. Annars vegar fiskeldisfyrirtækið Arnarlax sem hefur verið mikið í umræðunni, sem og Rapyd. En forstjóri þess fyrirtækis og stofnandi, Arik Shtilman, hefur opinberlega lýst yfir stuðningi sínum við ísraelska herinn í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs.
Í tengslum við samstarfssamninga HSÍ við ofangreind fyrirtæki mátti greina umræðu á samfélagsmiðlum þar sem að meðal annars þjóðþekktir einstaklingar sögðu HSÍ ekki eiga að eiga í samstarfi með umræddum fyrirtækjum.
Kom þessi umræða þér spánskt fyrir sjónir?
„Hún var bara svo hrikalega skökk. Það fólk sem var að tala um þetta vissi náttúrulega bara ekkert hvað það var að tala um. Við erum bara í íþróttastarfi. Þegar að það eru öflug og stór fyrirtæki sem eru tilbúin að styðja okkur og vera í samstarfi við okkur, þá að sjálfsögðu vinnum við með þeim. Þetta eru stoltir samstarfsaðilar okkar.“