Í Stapaskóla munu iðkendur Njarðvíkinga æfa og spila sínar íþróttir. Það er algjörlega ljóst að þetta mun gjörbreyta allri umgjörð fyrir félagið. Fjallað var um nýja húsið í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.
Ljónagryfjan var tekin í notkun árið 1973 en þetta sögufræga íþróttahús er orðið barn síns tíma og hafa Njarðvíkingar beðið lengi eftir nýju íþróttahúsi. Stefnt er að því að keppt verði í Bónusdeild karla og kvenna á næsta tímabili í Stapaskóla. Nýja húsið í Njarðvík tekur 1.400 manns í sæti.
„Þetta er glæsileg aðstaða sem við erum búin að bíða lengi eftir og erum spennt að fá að taka í notkun. Þetta mun gjörsamlega breyta öllu og allri umgjörð í kringum körfuboltann í Njarðvík,“ segir Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari karlaliðs Njarðvíkur í körfubolta.
Háskólar í Bandaríkjunum fyrirmyndin
„Þetta er þvílíkt mannvirki, mikið pláss og ótrúlega gaman að fá nýtt upphaf í körfuboltann í Njarðvík.“
Rúnar segir að íþróttafólk Njarðvíkinga fái núna alvöru aðstöðu.
„Meistaraflokkur karla og kvenna fær stórglæsilega búningsaðstöðu, eigin klefa og við horfðum töluvert á háskólaumhverfið í Bandaríkjunum sem fyrirmynd. Heitur og kaldur pottur inni í klefanum og það er mikil breyting frá því að vera nota leikfimiklefa. Núna getum við gert þetta alveg að okkar.“
Hann segir að núna verði félagið samkeppnishæft þegar kemur að mannvirkjum.
„Bara þegar kemur að auglýsingum, þá verða LED skilti í kringum völlinn. Svo varðandi miðasölu þá breytist margt. Ljónagryfjan takmarkaði miðasölu ansi mikið en Njarðvík vill vera í fremstu röð og að geta komið hátt í tvö þúsund manns hingað inn í úrslitakeppni breytir miklu.“
Hér að neðan má sjá innlit í nýtt íþróttahús Njarðvíkinga, Stapaskóla.