Bjarni segir starfshóp vinna að því að safna skýrslum, gögnum og öðrum upplýsingum sem hægt sé að komast yfir á þessum tímapunkti. Sömuleiðis sé verið að leita skýringa hjá þeim stofnunum sem hafa aðkomu að regluverki, leyfisveitingum og slíku.
„Sú vinna stendur yfir og við fórum aðeins yfir stöðu málsins,“ segir Bjarni.
Varðandi það hvort hafa þyrfti hraðar hendur í málinu og skýra laga og regluramma í ljósi þess að enn sé verið að selja ferðir í íshella, segir Bjarni það vera alveg klárt.
„Ég verð að segja það alveg eins og er að það kemur mér mjög á óvart að heyra fréttir af því að enn sé verið að selja ferðir inn í íshella eftir þetta slys, sem að varð um daginn, og þær aðvaranir sem hafa svo skýrt komið fram að þetta geti verið hættulegt að sumarlagi,“ segir Bjarni.
Hann segist ekki skilja hvernig á því stæði að enn væri verið að selja í þessar ferðir.
„Það er eitt af því sem ég spurði að á þessum ríkisstjórnarfundi, hvort einhver í stjórnkerfinu gæti ekki svarað því hvort ástæða væri til að hreinlega stöðva það. Eða hvaða regluverk gilti í þeim efnum og hvort einhverjar heimildir skorti til slíks.“