Lífið

Timberla­ke gengst við ölvunar­akstri

Kjartan Kjartansson skrifar
Eftir einn ei aki neinn, jafnvel ekki Justin Timberlake.
Eftir einn ei aki neinn, jafnvel ekki Justin Timberlake. AP

Bandaríski tónlistarmaðurinn Justin Timberlake viðurkenndi að hafa ekið bíl sínum þrátt fyrir að hann væri ekki í ástandi til þess fyrir dómi í New York í dag. Hann hvatti fólk til að þess að aka ekki ölvað.

Söngvarinn var handtekinn í The Hamptons, heldrimannahverfi í New York-ríki, í júní. Þá hafði hann hunsað stöðvunarskyldu og ekið rykkjótt. Í ákæru á hendur honum kom fram að af honum hefði lagt stæka áfengislykt og augu hans hefðu verið blóðhlaupin og stjörf. 

Timberlake neitaði að anda í áfengismæli og stóð sig illa á prófi sem er ætlað að meta ökuhæfni. Hann sagði lögreglumönnum að hann hefði fengið sér eitt glas af brenndu víni.

Til þess að komast hjá alvarlegri eftirmálum gerði Timberlake sátt við saksóknara um að hann játaði á sig vægara brot sem telst ekki hegningarlagabrot, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Timberlake þarf að greiða sekt og gegna 25 klukkustunda samfélagsþjónustu.

Strax eftir að málinu var lokið afgreiddi Timberlake síðasta skilyrði sáttarinnar: að vara almenning við því að aka undir áhrifum áfengis fyrir utan dómshúsið.

„Jafnvel þótt þú hafir bara fengið þér einn drykk, ekki setjast undir stýri. Þetta eru mistök sem ég gerði en ég vona að þau sem eru að horfa og hlusta núna geti lært af þeim. Ég veit að ég hef gert það,“ sagði Timberlake fullur iðrunar.


Tengdar fréttir

Timberlake ákærður og handtökumyndin birt

Lögregluyfirvöld vestanhafs hafa birt myndina sem tekin var af tónlistarmanninum Justin Timberlake eftir að hann var handtekinn fyrir ölvunarakstur um helgina.

Justin Timberlake handtekinn

Söngvarinn og leikarinn Justin Timberlake var handtekinn fyrir ölvunarakstur snemma í morgun á Long Island eyjunni á austurströnd Bandaríkjanna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×