Svona hefst fréttatilkynning til fjölmiðla sem nýir eigendur Björnsins sendu frá sér fyrir skömmu.
Enda stórhuga menn!
„Við vinnum aðallega með verktökum og arkitektum, en hver sem er getur að sjálfsögðu heyrt í okkur.“ segir Anton Pétur Sveinsson, einn eigendanna þriggja, en hinir tveir eru Jóel Kristjánsson og Ísak Einar Ágústsson.
Þeir segja margt gott við að vera ungir en reyndir menn í bransanum.
„Það segir sig sjálft að við höfum endalausa orku og því getuna til að vinna langa vinnudaga,“ segir Jóel.
„Og tölvu- og tækniþekkinguna sem er orðin meiri nú en áður. Við erum kannski fljótari að læra á tæknina miðað við marga eldri menn,“ segir Ísak.
Anton, Ísak og Jóel segja mörg tækifæri framundan.
„Björninn er félag sem hefur verið starfandi í rúm 50 ár og með ríka sögu,“ segir jafnframt í tilkynningu.

Allir með reynslu af rekstri
Ísak er fæddur árið 2001 en Jóel og Anton árið 2002. Þó eru þeir engir nýgræðingar í rekstri, því allir hafa þeir starfað sjálfstætt og til viðbótar við Björninn, eiga Ísak og Jóel í fyrirtæki sem selur jakkaföt, Jökull og Co., en Anton hefur starfað sjálfstætt í verktakageiranum.
Þótt félagarnir hafi keypt Björninn saman, nær vinskapurinn ekkert langt aftur í tímann.
„Við kynntumst þegar við vorum að vinna saman að niðurrifi á húsi fyrir annan verktaka árið 2022,“ segir Ísak og vísar þar til þess þegar hann og Jóel kynntust.
„Fljótlega eftir að við kynntumst fórum við að tala um að fara okkar eigin leiðir,“ segir Jóel.
„Ég kom síðan inn í hópinn nokkru eftir að Ísak og Jóel kynntust því ég kynntist þeim í gegnum sameiginlegan vin okkar.“

Ísak og Jóel eru með sveinspróf í húsasmíði en Anton er að klára sinn síðasta áfanga í skólanum.
En hvers vegna sáuð þið tækifæri í að kaupa Björninn?
„Verkstæðið er auðvitað mjög stórt,“ svara félagarnir nánast í kór.
Og bæta við að framleiðslugetan sé því mjög mikil.
Varðandi tæknihlutann segjast félagarnir óvenju tæknivæddir. Tilboð og sögunarlistar séu ekki skrifaðir á blöð eins og oft er gert á gamla mátann.
„Við erum með reiknivél sem reiknar út nákvæmt tilboð, þar sem allt kemur fram í smáatriðum. Nýting efnis og verð. Þetta eru mjög nákvæm tilboð og mikill plús að geta rumpað af tilboðsgerð í einum hvelli með svona reiknivél,“ segir Ísak.
„Þjónustan okkar er líka sérsmíði sem er ekki háð þessum föstu stöðlum sem eru víða. Hjá Ikea og fleirum aðilum. Við getum smíðað í raun hvað sem er af innréttingum, eftir því hvað þarf hjá hverjum og einum,“ segir Jóel.
Anton bætir við að fyrir verktaka og arkitekta skipti þetta miklu máli. Til dæmis bjóði þeir upp á þá möguleika að smíða allt úr plasti, þá sléttu eða úr viðarlíki en einnig geta þeir spónlagt úr ýmsum viðartegundum, ef þess er óskað.
„Fólk getur komið til okkar með skissur heiman frá sér og við fíneserað teikningarnar eða ráðlagt um hvað virkar og hvað ekki. Nema auðvitað þegar unnið er fyrir arkitekta, þá er ekki hreyft við þeim teikningum,“ segir Anton.

Skýr hlutverkaskipting
Félagarnir segja hlutverkaskipanina skýra innan hópsins.
„Besti smiðurinn í hópnum er án efa Anton,“ segja Jóel og Ísak.
„Hlutverkaskiptingin okkar er í raun mjög skýr því við búum yfir ólíkum styrkleikum,“ segir Anton og bætir við:
„Jóel heldur utan um skipulag og tilboðsgerðir, á meðan Ísak sér um fjármálin, vefsíðuna og er má segja tæknimaðurinn í hópnum, líka yfir yfirfræsaranum,“ segir Anton. Sem sjálfur sér um sölumálin og sögina.
„Anton kemur með peningana í baukinn,“ segja Jóel og Ísak og brosa í kambinn.
Félagarnir segja Björninn vera rótgróið fyrirtæki en það hafi þó lítið verið í starfsemi síðustu árin. Mest megnist þá í verkefnum sem eigendur verkstæðisins voru að vinna að fyrir aðila sem þeir þekktu til.
En hvers vegna voru þið þá að kaupa, eru ekki nógu margir í þessu nú þegar?
„Nei alls ekki,“ svara félagarnir og eru snöggir að því.
„Það eru allir í þessum geira nokkurn veginn að vinna með árs biðlista og það segir bara sitt um hver þörfin er,“ segir Anton.
„Fyrir utan það: Ekki gleyma Veljum íslenskt og allt það,“ segir Jóel og bendir á hvernig innlend framleiðsla er allra hagur.
En koma aldrei upp samtöl sem eru erfið og þið ekki allir sammála?
„Nei,“ svara félagarnir og Anton bætir við:
„Við náum allavega alltaf að negla einhvern milliveg.“
Þegar menn eru með sömu stefnu í grunninn og hafa sömu gildi, þá er alltaf hægt að rökræða sig í gegnum hvaða mál sem er.
Það hefur okkur tekist að gera, enda teljum við okkur ágætlega greinda menn,“
segir Ísak og brosir.

Stór markmið
Félagarnir segjast óhræddir við að takast á við framtíðina og þær áskoranir sem verkefnum og rekstri geta fylgt.
Markmiðið sé klárlega að helst allir á Íslandi læri að þekkja innréttingar frá Birninum og hver veit nema fyrirtækið muni stækka og útvíkka starfsemina seinna meir.
Ætlunin sé allavega að keyra af stað í uppbyggingu og sókn af krafti.
„Við erum alveg óhræddir enda höfum við unnið að allskonar verkefnum og áskorunum í verktakabransanum nú þegar, þannig að við þekkjum þetta umhverfi og hver þörfin er,“ segir Anton.
„Við erum auðvitað bara góðir tækifærissinar, samhliða því að vera hagkvæmnissinnar og kunnum því að leita að gullinu,“ segir Jóel og brosir.