Rannsókn héraðssaksóknara á meintum brotum stjórnenda skipafélaganna tveggja hófst árið 2014. Fjórir núverandi og fyrrverandi stjórnendur félaganna hafa haft stöðu sakbornings við rannsóknina. Samkeppniseftirlitið gerði Samskipum að greiða 4,2 milljarða króna í sekt vegna ólöglegs samráðs við Eimskip en síðarnefnda félagið gerði sátt við eftirlitið um að það greiddi 1,5 milljarða króna fyrir sinn þátt.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, segir málið enn skráð í rannsókn hjá embættinu en hún sé ekki virk í augnablikinu. Málið sé umfangsmikið og mannaflafrekt og embættið hafi einfaldlega ekki mannafla í að vinna það samfellt samhliða öðrum stórum málum.
„Það er tíu ára fyrningartími á þessum brotum. Ég reikna með að taka stöðuna á því þegar við förum að hafa einhverjar lausar hendur,“ segir hann við Vísi.
Sektirnar sem Samskipum og Eimskipum voru gerðar vörðuðu ólöglegt samráð sem Samkeppniseftirlitið sagði hafa átt sér stað á árunum 2008 til 2013. Að minnsta kosti hluti mögulegra lögbrota gæti því þegar verið fyrndur.
„Það er reglulega farið yfir málastöðuna. Það er náttúrulega endalaus forgangsröðun í gangi eins og annars staðar í opinbera kerfinu,“ segir Ólafur Þór.
Meiri niðurskurðarkrafa en annars staðar hjá löggæslu og í dómskerfi
Nokkur stór mál sem komu upp árið 2019 hafa haldið stórum hópi starfsmanna héraðssaksóknaraembættisins uppteknum, meðal annars umfangsmikið peningaþvættismál þar sem hátt í fimmtíu manns hafa stöðu sakbornings og tengist stórum fíkniefnamálum. Þá kom mál Samherja í Namibíu inn á borð embættisins á sama tíma.
Til að bæta gráu ofan á svart fékk embætti héraðssaksóknara á sig fimm prósent niðurskurðarkröfu í fjárlögum þessa árs. Ólafur Þór segir að fækkað hafi verið um sex störf hjá embættinu vegna þess í fyrra. Fækkað hafi verið á öllum sviðum embættisins, þar á meðal aðstoðarsaksóknurum og rannsakendum.
Ólafur Þór segir að löggæsla og dómstólar hafi einnig fengið á sig niðurskurðarkröfu í fyrra en hún hafi verið innan við helmingur þess sem embætti hans þurfti að minnka við sig.
„Einhverra hluta vegna var niðurskurðurinn dýpri hjá ákæruvaldinu en hjá þessum stofnunum sem við störfum í miklu návígi við. Þá verður náttúrulega slagsíða á því embætti sem er skorið meira niður en önnur. Það eru ekki mjög flókin vísindi,“ segir hann.
Varðandi rannsóknina á samráðsmáli skipafélaganna segir Ólafur Þór að það sjái fyrir endann á rannsókn nokkurra þeirra stóru mála sem hafa haldið starfsmönnum embættisins frá því.
„Þá förum við að ráðstafa þeim mannskap sem losnar og huga að því sem eftir stendur.“