Kannanir hljóta að vera mikið áhyggjuefni fyrir Guðlaug Þór Þórðarson, fyrsta þingmann Sjálfstæðisflokks í Reykjavík. Kosningabaráttan hefur líka verið furðuleg svo ekki sé fastar að orði kveðið, en Guðlaugur virðist telja að Reykvíkingar allir kjósi á grundvelli skipulagsmála í hans annars frábæra heimahverfi – Grafarvogi.
Oddvitinn í hinu Reykjavíkurkjördæminu – Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir – virðist að minnsta kosti ekki ætla að fljóta sofandi að feigðarósi en mál manna er að það lífsmark sem flokkurinn þó sýni megi rekja til hennar.
Það kann að vera að lesendur Ráðgjafans fyllist ekki innblæstri við baráttu Valhallar. Þeir skoðanabræður Ráðgjafans sem nú eru í stökustu vandræðum mega þó hafa hugfast, mikilvægi þess að varast frekari skattahækkanir, Evrópusambandsaðild og fákeppnisáherslur á leigubíla- og áfengismarkaði.
Það skyldi þó ekki vera að lausnin á vandræðum Sjálfstæðismanna sé að finna í borginni eftir allt saman, og alvöru, klassískri hægrimennsku?
Sérstaka athygli vakti nýjasta mæling Maskínu en samkvæmt því nýtur Sjálfstæðisflokkurinn um 24% fylgis ef kosið yrði til borgarstjórnar. Sú staðreynd að flokkurinn nýtur tvöfalt meira fylgis í borgarstjórn en til Alþingis hlýtur að teljast persónulegur sigur fyrir Hildi Björnsdóttur oddvita Sjálfstæðisflokksins í borginni.
Hildur hefur farið mikinn í umræðunni undanfarið um fjármál borgarinnar og talar þar beint til hjarta margs hægri mannsins. Það skyldi þó ekki vera að lausnin á vandræðum Sjálfstæðismanna sé að finna í borginni eftir allt saman, og alvöru, klassískri hægrimennsku?
Má ekki hafa gaman?
Stórkostlegt var að fylgjast með uppákomu liðinnar viku í Verkmenntaskólanum á Akureyri, þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór á kostum.
Enn kostulegra var svo að verða vitni að viðbrögðum skólameistarans og fyrrum frambjóðanda Samfylkingarinnar sem lét eins og um væri að ræða svæsna aðför að lýðræðinu. Aðrir æðstuprestar og réttlætisriddarar fylgdu í kjölfarið.
Hvað er eiginlega að ef ekki er pláss fyrir saklaust grín? Aldrei breytast Simmi D.
Ráðgjafinn er vikulegur pistill þar sem innanbúðarmaður tekur púlsinn á stöðunni innan stjórnmála og atvinnulífs.