Fótbolti

Real Madrid ekki í neinum vand­ræðum með Leganés

Siggeir Ævarsson skrifar
Kylian Mbappe fann netið í kvöld
Kylian Mbappe fann netið í kvöld Vísir/Getty

Real Madrid heldur pressunni áfram á topplið Barcelone í spænsku úrvalsdeildinni en liðið vann þægilegan 0-3 sigur á Leganés í kvöld.

Það tók gestina dágóða stund að brjóta niður varnarmúr heimamanna en á 43. mínútu brotnaði hann nokkurn veginn bókstaflega. Varnarmenn Leganés voru kærulausir með boltann rétt við eigin vítateig og endaði hann í fótum Viní Jr sem lagði upp galopið færi fyrir Mbappe sem afgreiddi boltann örugglega í netið.

Federico Valverde tvöfaldaði svo forskotið á 66. mínútu og Jude Bellingham rak svo smiðshöggið á 0-3 sigur liðsins með marki á 85. mínútu eftir klaufagang í teig Leganés eftir hornspyrnu. Bellingham, sem var 19 marka maður í deildinni í fyrra, var að skora sitt annað mark það sem af er vetri.

Úrslitin þýða að Real Madrid er aðeins fjórum stigum á eftir toppliði Barcelona og á leik til góða. Liðið hefur aðeins tapað einum leik það sem af er tímabili, einmitt gegn Barcelona þann 26. október þegar liðið steinlá 0-4 á heimavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×