Amorim stýrði United í fyrsta skipti þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Ipswich á Portman Road. Marcus Rashford kom Rauðu djöflunum yfir eftir áttatíu sekúndur en Omari Hutchinson jafnaði fyrir nýliðana skömmu fyrir hálfleik.
Eftir leikinn fór Amorim í viðtal hjá Sky Sports. Kelly Cates, Roy Keane, Izzy Christiansen og Jamie Redknapp voru þar en allt í einu birtist Sheeran í Ipswich jakka. Tónlistarmaðurinn er harður stuðningsmaður Ipswich og á 1,4 prósenta hlut í félaginu.
Cates ávarpaði Sheeran sem vinkaði Amorim og faðmaði svo Redknapp. Hann bað hann svo kurteislega að hafa sig á brott svo hægt væri að taka viðtalið við Amorim.
Sheeran hefur nú beðist afsökunar á því að hafa mögulega móðgað Amorim. Hann segist ekki hafa vitað að hann væri í viðtali og hafi einungis ætlað að heilsa upp á Redknapp.
Ipswich hefur náð í fjögur stig í síðustu tveimur leikjum, gegn Tottenham og United. Ipswich er í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með níu stig eftir tólf leiki. United er í 12. sætinu með sextán stig.