Viðskipti innlent

Lög­reglan rann­saki ljúg­vitni í Lyfjablómsmálinu

Jón Þór Stefánsson skrifar
Björn Thorsteinsson, framkvæmdastjóri Lyfjablóms, hefur staðið í málaferlum á hendur Sólveigu G. Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Þórði Má Jóhannessyni.
Björn Thorsteinsson, framkvæmdastjóri Lyfjablóms, hefur staðið í málaferlum á hendur Sólveigu G. Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Þórði Má Jóhannessyni.

Lögreglan rannsakar nú tvo menn vegna meints ljúgvitnis fyrir dómi í máli félagsins Lyfjablóms gegn Þórði Má Jóhannessyni og Sólveigu G. Pétursdóttur, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, segir Björn Thorsteinsson, framkvæmdastjóri Lyfjablóms.

Í tilkynningu Björns segir að framburður mannanna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í Gnúpsmálinu svokallaða hafi orðið til sýknu í málinu, bæði 2019 og 2022.

Í tilkynningu Björns segir jafnframt að Lyfjablóm hyggist leggja fram kærur á hendur Þórði Má fyrir að bera ljúgvitni fyrir dómi.

Lyfjablóm og aðstandendur félagsins hafa á undanförnum árum staðið í málaferlum á hendur Þórði og Sólveigu. Síðast í september á þessu ári hafnaði Hæstiréttur að taka eitt af þessum málum fyrir og staðfesti þar með sýknu Sólveigar af 28 milljóna kröfu Áslaugar Björnsdóttur.

Málin hafa þó varðað talsvert hærri skaðabótakröfur. Í júní 2022 voru Þórður Már og Sólveig sýknuð af 2,3 milljarða skaðabótakröfu.

Málin hafa tengst fjárfestingarfélaginu Gnúpi sem var stofnað 2006. Lyfjablóm, sem hét áður Björn Hallgrímsson, átti 47 prósenta hlut í Gnúpi, en Þórður Már gegndi forstjórastöðu í félaginu.

Eigendur Lyfjablóms voru börn Björns Hallgrímssonar. Sonur hans Kristinn var í fosvari fyrir félagið.

Sólveig er ekkja Kristins. Hún var dóms- og kirkjumálaráðherra á árunum 1999 til 2003 og forseti Alþingis á árunum 2005 til 2007, á þeim tíma sem hinir umdeildu viðskiptagerningar voru framkvæmdir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×