Innherji

Skynsemisstjórn í burðar­liðnum?

Ráðgjafinn skrifar
Það virðist augljóst að mun meiri samhljómur er milli Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks þegar kemur að þeim málum sem líklegt er að reyni á.
Það virðist augljóst að mun meiri samhljómur er milli Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks þegar kemur að þeim málum sem líklegt er að reyni á.

Kosningabaráttan er í algleymingi og taugar þandar til hins ýtrasta. Kannanir eru auðvitað kannanir, en líklegt virðist að Samfylking, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur gætu endað nokkuð jöfn og stærst. Viðreisn yrði samkvæmt því í lykilstöðu við stjórnarmyndun og gæti valið að starfa til hægri, eða vinstri.

Þá reynir á gömlu klisjuna um að málefnin ráði. Samfylkingin og Viðreisn eru augljóslega nokkurn veginn á sömu línu í Evrópumálum. Hvorki Kristrún Frostadóttir né Þorgerður Katrín hafa þó gert Evrópusambandsaðild að neinu aðalmáli, enda yfirleitt skynsamar báðar tvær. Þær vita sem er að harður stuðningur við Evrópusambandsaðild er ekki líklegur til að fiska.

Þá eru pólitískar aðstæður í Evrópu einfaldlega með þeim hætti að farsælast væri að leyfa rykinu að setjast áður en skref væru tekin til inngöngu. Evrópusambandið er því einfaldlega ekki til úrlausnar til skamms tíma, og ólíklegt að það mál verði helsti steytingarsteinninn við stjórnarmyndunarborðið. Hvað sem Guðbrandi Einarssyni í Suðurkjördæmi finnst um það.

Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn ættu því að geta náð saman um stjórnarsáttmála um efnahagslegt aðhald, minni ríkisafskipti og niðurskurð í opinbera kerfinu.

Þá kemur að öðru, en það virðist augljóst að mun meiri samhljómur er milli Viðreisnar og Sjálfstæðisflokks þegar kemur að þeim málum sem líklegt er að reyni á. Báðir flokkar tala fyrir bættum ríkisrekstri, og leggjast gegn skattahækkunum. Samfylkingin er þar á algerlega öndverðum meiði. Hafa meðal annars talað um hækkun á fjármagnstekjuskatti, og virðast með hefðbundnar sósjíal demókratískar áherslur þegar kemur að tiltekt hjá hinu opinbera.

Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn ættu því að geta náð saman um stjórnarsáttmála um efnahagslegt aðhald, minni ríkisafskipti og niðurskurð í opinbera kerfinu.

Hvað getur komið í veg fyrir skynsemisstjórn til hægri, annað en skortur á heilbrigðri skynsemi?

Svitnað í kastljósinu

Þótt augljóst sé að tveir af Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Viðreisn komi til með að enda í ríkisstjórn, þá munu flokkarnir alltaf þurfa að minnsta kosti einn flokk til svo myndaður verði meirihluti.

Hvað ætli formönnum þriggja efstu flokkana finnist til að mynda um það útspil frambjóðanda Flokks fólksins að vilja setja neyðarlög á Seðlabankann og þvinga hann þannig til að lækka vexti?

Þá beinist kastljósið þangað. Hvaða fólk er þetta sem raunverulega gæti spilað lykilrullu við stjórnarmyndun?

Hvað ætli formönnum þriggja efstu flokkana finnist til að mynda um það útspil frambjóðanda Flokks fólksins að vilja setja neyðarlög á Seðlabankann og þvinga hann þannig til að lækka vexti? Varla getur sá sem kemur fram með slíka tillögu talist stjórntækur?


Ráðgjafinn er vikulegur pistill þar sem innanbúðarmaður tekur púlsinn á stöðunni innan stjórnmála og atvinnulífs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×