Handbolti

Bjarki Már með sex í hundraðasta leiknum fyrir Veszprém

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarki Már Elísson var næstmarkahæstur í liði Veszprém í kvöld.
Bjarki Már Elísson var næstmarkahæstur í liði Veszprém í kvöld. getty/Ayman Aref

Sigurganga Veszprém í Meistaradeild Evrópu í handbolta hélt áfram í kvöld þegar liðið lagði Fredericia, sem Guðmundur Guðmundsson stýrir, örugglega að velli, 31-40.

Bjarki Már Elísson lék sinn hundraðasta leik fyrir Veszprém í kvöld. Hann hélt upp á tímamótin með því að skora sex mörk í sex skotum. Aðeins Nedim Remili skoraði meira fyrir ungverska liðið, eða tíu mörk.

Aron Pálmarsson skoraði tvö mörk fyrir Veszprém sem hefur unnið níu af tíu leikjum sínum í A-riðli Meistaradeildarinnar. Liðið er með fimm stiga forskot á toppi hans.

Ekki hefur gengið jafn vel hjá Fredericia sem er á botni riðilsins með þrjú stig. Einar Þorsteinn Ólafsson var ekki á meðal markaskorara hjá danska liðinu í kvöld og Arnór Viðarsson lék ekki með því.

Kolstad tapaði sínum fjórða leik í röð í B-riðli þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Kielce, 31-30. 

Arnór Snær Óskarsson var markahæstur Íslendinganna í liði Kolstad með fjögur mörk. Sveinn Jóhannsson skoraði þrjú og Sigvaldi Guðjónsson eitt. Benedikt Gunnar Óskarsson komst ekki á blað.

Kolstad er í 7. sæti B-riðils Meistaradeildarinnar með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×