Erlent

Spá veikri og skamm­lífri „stelpu“ í Kyrra­hafi

Kjartan Kjartansson skrifar
La niña-veðurfyrirbrigðinu fylgir oft aukin úrkoma í norðan- og austanverðri Ástralíu. Sterk la niña olli miklum flóðum þar síðla árs 2010 og snemma árs 2011.
La niña-veðurfyrirbrigðinu fylgir oft aukin úrkoma í norðan- og austanverðri Ástralíu. Sterk la niña olli miklum flóðum þar síðla árs 2010 og snemma árs 2011. Vísir/Getty

Langtímaspár benda til þess að veðurfyrirbrigðið La niña gæti myndast í Kyrrahafi á næstu þremur mánuðum. Fyrirbrigðið er tengt kólnun en talið er að það verði veikt og skammlíft að þessu sinni.

La niña, sem þýðir lítil stelpa á spænsku, er andhverfa El niño sem er tengt við tímabundna hlýnun yfirborðssjávar í Kyrrahafi og hærri meðalhita jarðar. Fyrirbrigðið hefur einnig áhrif á úrkomumynstur og er tengt við aukna þurrkatíð á sumum stöðum en aukna úrkomu annars staðar.

Eftir að sterkum El niño-atburði sem hófst í fyrra slotaði í ár hafa aðstæður í Kyrrahafi verið taldar í hlutlausum fasa. Nú segir Alþjóðaveðurfræðistofnunin (WMO) að 55 prósent líkur séu á að La niña-aðstæður myndist einhvern tímann frá þessum mánuði fram í febrúar. Svipaðar líkur eru á að La niña gangi niður á milli febrúars og apríls.

Celeste Saulo, framkvæmdastjóri WMO, segir að jafnvel þótt La niña myndist og hafi tímabundin kólnunaráhrif á heimsvísu dugi að ekki til þess að vega upp á þeirri hlýnun sem á sér stað vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Útlit sé fyrir að árið sem er að líða verði það hlýjasta frá upphafi mælinga.

„Jafnvel án áhrifa El niño eða La niña aðstæðna frá því í maí höfum við orðið vitni að ótrúlegri röð öfgakenndra veðurviðburða, þar á meðal metrigningar og flóða sem hafa því miður orðið nýja viðmiðið í loftslagi okkar sem tekur breytingum,“ segir Saulo.

Spá WMO gerir ráð fyrir að yfirborðshiti sjávar verði yfir meðaltali á öllum djúphafsflæmum jarðar fyrir utan þann hluta Kyrrahafsins sem La niña tengist. Því megi búast við hita yfir meðaltali yfir landi á flestum stöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×