Franskir fjölmiðlar greindu frá málinu síðdegis.
Lögregluyfirvöld hafa staðfest að fjórir voru skotnir til bana við ströndina í Loon-Plage, þar sem flóttamenn hafa komið sér upp flóttamannabúðum, og að fimmta manneskjan hafi verið myrt í bænum Wormhout. Fórnarlömbin fimm eru karlmenn samkvæmt frönskum miðlum.
Hinn grunaði gaf sig fram á lögreglustöðinni í Ghyvelde, austan við Dunkerque og sagðist bera ábyrgð á árásinni. Þrjú skotvopn fundust síðan í bíl mannsins. Rannsóknardeild lögreglunnar í Lille fer með rannsókn málsins.
Fyrsta morðið virðist hafa verið skipulagt
Lögreglan var fyrst kölluð til búðanna á Mardyck-vegi upp úr fjögur á staðartíma eftir tilkynningu um skotmann.
Tvennum sögum fer af því í hvaða röð morðin áttu sér stað. Fyrst á skotmaðurinn að hafa skotið tvo flóttamenn, sem eru sagðir vera karlmenn af kúrdískum uppruna, til bana nálægt olíuhreinsunarstöð á svæðinu. Skömmu eftir það hafi hann myrt tvo öryggisverði sem voru á vakt í nágrenninu.
Skotmaðurinn játaði síðan að hafa skotið fimmtu manneskjuna til bana um þrjú síðdegis í Wormhout, sem er um 24 kílómetra frá Dunkerque. Samkvæmt vitnisburði ekkju hins láta varð eiginmaður hennar var við hávaða frá bíl í porti heimilisins og fór út. Þá hafi maður stigið út úr bílnum, skotið eiginmanninn nokkrum sinnum, þar á meðal í höfuðið, og keyrt á brott. Maðurinn sem lést var tveggja barna faðir og eigandi dráttarbílafyrirtækis.