The Damned er sálfræðileg hryllingsmynd sem gerist á nítjándu öld á Vestfjörðum og er aðalpersóna myndarinnar Eva, ekkja og erfingja afskekktar verbúðar. Þegar erlent seglskip strandar í firðinum, stendur Eva frammi fyrir erfiðu vali, á hún og vinnumenn hennar, að koma til bjargar eða forgangsraða eigin velferð. Þjökuð samviskubiti og vaxandi ótta um ómanneskjulega hefnd, takast Eva og vinnumenn hennar, á við afleiðingar gjörða sinna.
Áhugavert samansafn erlendra leikara fer með hlutverk í myndinni. Þannig gerði Joe Cole sem dæmi garðinn frægan í sjónvarpsþáttunum Peaky Blinders og fer með aðalhlutverkið í Gangs of London. Þá fer Rory McCann jafnframt með hlutverk í myndinni en hann er líklega frægastur fyrir hlutverk sitt sem The Hound í Game of Thrones.
Hugmyndin úr gömlum draugasögum
Myndin hefur vakið töluverða athygli erlendis að sögn framleiðenda, meðal annars á kvikmyndahátíðinni Tribeca. Myndin var tekin upp síðasta vetur á Vestfjörðum. Hugmyndina hefur Þórður rekið til draugasagna sem hann heyrði á uppvaxtarárum sínum um það hvernig heimamenn reyndu viljandi að láta skip reka á land.
„Síðan var allt hirt sem hægt var og passað upp á, að enginn lifði af til að segja frá. Draugur getur verið andi en einnig hræðilega vera, rotnandi líkami sem leitar þig uppi í myrkrinu. Svona sögur sátu í mér sem krakki og varð uppsprettan að The Damned,“ segir Þórður.
Myndin var tekin upp á Vestfjörðum síðastliðinn vetur. Ósvör í Bolungarvík var endurlífgað og lítið kvikmyndaver sett upp á Ísafirði. The Damned er framleidd af Elation og Wild Atlantic og meðframleidd af hinu íslenska Join Motion Pictures. Protagonist sér um alþjóðlega dreifingu myndarinnar.