Fótbolti

Heiður að vera keypt á met­fé frá Val: „Stórt og gott skref“

Aron Guðmundsson skrifar
Fanney Inga hefur tekið spennandi stökk til Svíþjóðar þar sem hún hefur verið keypt til eins af toppliðum landsins. Hennar fyrsta skref á ferlinum út í atvinnumennsku.
Fanney Inga hefur tekið spennandi stökk til Svíþjóðar þar sem hún hefur verið keypt til eins af toppliðum landsins. Hennar fyrsta skref á ferlinum út í atvinnumennsku. Mynd: BK Hacken

Landsliðsmarkvörðurinn­­­ í fót­bolta, Fann­ey Inga Birkis­dóttir, horfir fram á spennandi tíma í at­vinnu­mennsku. Hún heldur nú á gamal­kunnar slóðir í Svíþjóð eftir að hafa verið keypt til BK Häcken á met­fé frá Val en lítur ekki á það sem auka pressu á sjálfa sig.

Greint var frá kaupum BK Häcken á mark­verðinum Fann­eyju Ingu frá Val undir lok október og sagt í til­kynningu að Häcken hefði greitt kaup­verð fyrir lands­liðs­mark­vörðinn sem ekki hefði sést í kvenna­boltanum hér á landi áður.

Häcken er eitt besta lið Svíþjóðar og hefur endað í 2.sæti efstu deildar þar í landi fjögur tíma­bil í röð sem og náð langt í Evrópu. Þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára gömul er Fann­ey Inga mjög reynslu­mikill og sigursæll mark­vörður eftir tíma sinn hjá Val og hefur hún um leið fest sig í sessi í markrammanum hjá ís­lenska lands­liðinu. Hún skrifar undir þriggja ára samning í Svíþjóð.

„Þetta er stórt skref og ég held að þetta sé líka gott skref. Mér fannst þetta mjög spennandi lið að fara í. Spennandi verk­efni og gott starf sem þarna er að vinna. Bæði er þetta sterkt lið innan sænsku deildarinnar sem og lið sem hefur verið að fara langt í Evrópu­keppni síðustu ár. Þetta var skref sem að mig langaði að taka. Þau eru ekki bara að hugsa um að vinna titla, heldur einnig að þróa leik­menn áfram og hafa verið að gera það í gegnum árin. Mér finnst þetta því bæði gott skref sem leik­maður og keppnis­manneskja. Ég fór á reynslu hjá þeim fyrir þremur árum og síðan þá hefur alltaf verið ákveðinn áhugi til staðar. Eftir síðastliðið tíma­bil þróaðist þetta svo mjög hratt.

Fanney Inga Birkisdóttir varð bæði Íslands- og bikarmeistari með Val.Vísir/Anton Brink

Mér fannst þetta vera góður tíma­punktur til þess að fara út. Ég er búin að taka tvö tíma­bil hér heima með Val. Það er búið að ganga vel og svo kemur svona spennandi áhugi sem er eigin­lega ekki hægt að segja nei við. Þá var ákvörðunin ekki svo flókin. Ef að það sem ég teldi rétt skref á mínum ferli hefði ekki komið þá hefði ég ekki átt í neinum vand­ræðum með að taka slaginn áfram hér heima.“

Metfé en ekki aukin pressa

Það að vera keypt á met­u­pp­hæð í ís­lenska boltanum truflar hana ekki.

„Mér finnst það aðal­lega bara vera heiður og merki um gott starf hjá mér og Val. Líka bara merki þess að kvenna­boltinn er að stækka. Vonandi heldur þessi upp­hæð bara áfram að hækka með árunum. Ég vil aðal­lega bara bæta mig og ná að verða besta út­gáfan sem að ég get orðið. Ég held að þau geti kennt mér helling hjá Häcken. Bæði fót­bolta­lega inn á vellinum en einnig sem mann­eskju utan hans.“

Fanney Inga með góð tilþrifVísir/Anton Brink

Stígur út fyrir þægindarammann

Og í Svíþjóð kannast Fann­ey vil við sig eftir að hafa búið þar í landi sem barn. Hún er al­talan á sænsku sem mun klár­lega koma sér að góðum notum.

„Ég bjó í Svíþjóð í fjögur og hálft ár þegar að ég var lítil. Ég var með sænskuna á hreinu eftir það og hef verið að halda henni við síðustu ár. Fór meðal annars í sænsku í skóla heldur en dönsku. Þetta er rosa gott skref að taka út frá því. Ekki mjög mikil breyting menningar­legs eðlis. Stærsta breytingin fyrir mig verður að fara frá fjöl­skyldu minni og búa ein.“

Hvernig leggst það akkúrat í þig. Að flytjast bú­ferlum til Svíþjóðar og fjöl­skyldan verður hér heima á Ís­landi?

„Það er auðvitað skrítið með lítil syst­kini og svona en ég held að þau verði dug­leg að koma í heimsókn og verður gaman að prófa að búa ein og takast á við þá áskorun.“

Fanney í leik með íslenska landsliðinuVísir/Diego

Þið munið þá njóta sam­verunnar um jólin extra mikið í ár?

„Já heldur betur. Maður mun mæta í helling af jóla­boðum og segja svo bless í bili við fjöl­skylduna.“

Kaflanum hjá Val lokið, hið minnsta að sinni og Fann­ey er þakk­lát fyrir tíma sinn á Hlíðar­enda.

„Valur er frábært félag að vera í . Hér er fullt af stórum karakterum sem maður getur lært af. Ekki bara í fót­boltanum heldur öllum íþrótta­deildum. Ég mun klár­lega sakna fjöl­skyldu stemningarinnar sem er hér. Vals­heimilið hefur verið mitt annað heimili síðastliðin fjögur til fimm ár. Það verður skrítið að fara héðan en líka gaman. Maður verður líka að fara út fyrir þæginda­rammann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×