Fótbolti

Héldu í hefðina og köstuðu þúsundum bangsa inn á völlinn

Sindri Sverrisson skrifar
Sælla er að gefa en þiggja ef marka má andlitin í stúkunni í gær, á heimaleik Real Betis gegn Rayo Vallecano.
Sælla er að gefa en þiggja ef marka má andlitin í stúkunni í gær, á heimaleik Real Betis gegn Rayo Vallecano. Getty/Fran Santiago

Stuðningsmenn spænska knattspyrnufélagsins Real Betis hafa skapað fallega jólahefð sem felst í því að gleðja bágstödd börn með gjöfum.

Real Betis lék í gær síðasta heimaleik sinn fyrir jól, þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Rayo Vallecano í Sevilla. Isco kom Betis yfir úr víti í fyrri hálfleik en Isi Palazón jafnaði snemma í seinni hálfleik.

Áður en leikurinn hófst köstuðu áhorfendur á leikvanginum mörgþúsund leikfangaböngsum og öðrum tuskudýrum inn á völlinn, eins og sjá má hér að neðan.

Tuskudýrin verða svo jólagjafir fyrir börn sem búa við bág kjör, en sett var sem skilyrði að dýrin væru mjúk og að þau innihéldu ekki nein batterí.

Tuskudýrin á Estadio Benito Villamarin voru af ýmsu tagi.Getty/Fran Santiago

Þessa hefð, að stuðningsmenn Real Betis kasti mjúkdýrum inn á völlinn, má rekja aftur til ársins 2018.

Stuðningsmennirnir í gær voru margir hverjir í jólabúningi en ekki með rauðar heldur grænar og hvítar jólahúfur, í litum Real Betis. Liðið situr í 9. sæti spænsku deildarinnar en Vallecano er í 12. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×