Sport

Tveir Grind­víkingar og Vals­kona til­nefnd sem Íþrótta­eld­hugi ársins

Sindri Sverrisson skrifar
Ingibergur Þór Jónasson, Björg Elín Guðmundsdóttir og Haukur Guðberg Einarsson eru tilnefnd sem íþróttaeldhugi ársins.
Ingibergur Þór Jónasson, Björg Elín Guðmundsdóttir og Haukur Guðberg Einarsson eru tilnefnd sem íþróttaeldhugi ársins. Samsett/ÍSÍ

Valnefnd Íþrótta- og ólympíusambands Íslands hefur valið þrjá öfluga sjálfboðaliða úr íþróttahreyfingunni sem koma til greina sem Íþróttaeldhugi ársins 2024. Þau koma úr fótbolta, handbolta og körfubolta.

Þetta verður í þriðja sinn sem „Íþróttaeldhugi ársins“ er útnefndur en verðlaunin eru afhent sama kvöld og Samtök íþróttafréttamanna velja íþróttamann ársins, lið ársins og þjálfara ársins, sem að þessu sinni verður næsta laugardagskvöld.

Þórsarinn Haraldur Ingólfsson var valinn fyrstur, fyrir árið 2022, og Guðrún Kristín Einarsdóttir var svo valin fyrir ári síðan, fyrir sjálfboðaliðastarf sitt fyrir Aftureldingu.

Valnefnd ÍSÍ er skipuð þekktu fólki úr íslensku íþróttalífi, eða þeim Þóreyju Eddu Elísdóttur formanni, Kristínu Rós Hákonardóttur, Margréti Láru Viðarsdóttur, Snorra Einarssyni og Degi Sigurðssyni.

Ljóst er að margir, öflugir sjálfboðaliðar koma til greina sem Íþróttaeldhugi ársins en í ár bárust alls 353 tilnefningar um alls 176 einstaklinga úr 24 íþróttagreinum.

Þeir einstaklingar sem valnefndin valdi úr röðum tilnefninga eru í stafrófsröð:

Björg Elín Guðmundsdóttir (handknattleikur), sem hefur starfað fyrir Knattspyrnufélagið Val og Handknattleikssamband Íslands (HSÍ).

Haukur Guðberg Einarsson (knattspyrna), formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur.

Ingibergur Þór Jónasson (körfuknattleikur), formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur.

Öll hafa þau unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþrótta til margra ára.


Tengdar fréttir

Haraldur Ingólfsson fyrsti Íþróttaeldhugi ársins

Haraldur Ingólfsson var í kvöld útnefndur Íþróttaeldhugi ársins, fyrstur allra. frá þessu var greint á kjöri íþróttamanns ársins. Haraldur starfar fyrir allar deildir Íþróttafélagsins Þórs og sinnir mjög stóru hlutverki hjá kvennaliði Þór/KA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×