Lífið

Brenton Wood er látinn

Eiður Þór Árnason skrifar
Brenton Wood hélt áfram að sinna tónlistinni þar til hann veiktist í fyrra. 
Brenton Wood hélt áfram að sinna tónlistinni þar til hann veiktist í fyrra.  Getty/David Redfern/Redferns

Sálarsöngvarinn Brenton Wood er látinn, 83 ára að aldri. Tónlistarmaðurinn, sem hét Alfred Jesse Smith, var þekktastur fyrir smellinn The Oogum Boogum Song sem kom út árið 1967.

Bandarískir miðlar birtu fregnir af andláti tónlistarmannsins á dögunum og voru þær í kjölfarið staðfestar af umboðsmanni hans Manny Gallegos. Lést hann á heimili sínu í Moreno Valley í Kaliforníu, skammt frá Los Angeles.

Wood fæddist í Shreveport í Louisiana-ríki, og ólst upp í San Pedro-hverfinu í Los Angeles. Hann fór í menntaskóla í Compton og gekk í Compton College, þar sem hann fékk tónlistarbakteríuna. The Guardian greinir frá en Wood var bæði söngvari og píanóleikari. Hann er einnig þekktur fyrir ábreiðu sína af laginu A Change Is Gonna Come, sem var upphaflega flutt af Sam Cooke en Wood lýsti honum sem einum af sínum helstu fyrirmyndum í tónlist.

Wood gaf út nokkrar plötur áður en smellurinn The Oogum Boogum Song kom honum á kortið. Lagið náði hæst 19. sæti á Billboard R&B vinsældalistanum og árið 1972 stofnaði hann sitt eigið útgáfufyrirtæki undir nafninu Prophesy Records. Lagið hefur meðal annars verið notað ítrekað í kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og auglýsingum. Síðustu fimm áratugi hélt hann svo áfram að gefa út tónlist hjá útgáfufyrirtæki sínu Mr Wood Records.

Wood hóf síðasta tónleikaferðlag sitt snemma árs 2024 sem nefndist Catch You on the Rebound. Í maí var Wood lagður inn á sjúkrahús og gerði því hlé á tónleikaferðalaginu, að sögn Variety.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.