Erlent

Aldrei færri fangar í Guantánamo-fangelsinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Þegar mest lét voru um 800 fangar í Guantánamo. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki.
Þegar mest lét voru um 800 fangar í Guantánamo. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. Vísir/Getty

Fimmtán fangar dúsa nú í Guantánamo-herfangelsinu á Kúbu og hafa aldrei verið færri eftir að ellefu fangar voru fluttir til Óman. Mennirnir voru teknir höndum eftir hryðjuverkaárásirnar á New York árið 2001 en hafa aldrei verið ákærðir fyrir nokkra glæpi.

Fangaflutningurinn fór fram snemma í gærmorgun en fangarnir eru allir frá Jemen, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þeir voru fluttir til Óman þar sem ástandið í Jemen þykir of óstöðugt vegna áralangs borgarastríðs sem þar geisar. Bandarísk stjórnvöld þökkuðu stjórnvöldum í Óman fyrir að taka þátt í því verkefni að fækka föngum í Guantánamo á „ábyrgan“ hátt. Til stendur að loka fangelsinu á endanum.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt framferði Bandaríkjastjórnar í Guantánamo. Þangað sendi hún erlenda vígamenn sem voru teknir höndum í kjölfar hryðjuverkanna 11. september árið 2001. Þar var þeim haldið árum og áratugum saman án ákæru.

Þegar mest lét voru um 800 fangar í fangelsinu sem er hluti af sjóherstöð Bandaríkjanna á suðaustanverðri Kúbu. Barack Obama, þáverandi forseti, vildi loka fangelsinu sem hann taldi stríða gegn grunngildum Bandaríkjanna en mætti andstöðu Bandaríkjaþings.

Donald Trump stöðvaði aðgerðir til þess að fækka föngum í Guantánamo í fyrri forsetatíð sinni. Hann sagðist telja það veikja ímynd Bandaríkjanna að loka fangelsinu eða sleppa föngunum. Joe Biden, fráfarandi forseti, tók aftur upp þráðinn og hefur grynnkað á fjöldanum sem er vistaður í fangelsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×