Upp­gjör og við­töl: Þór Ak.-Keflavík 109-87 | Þórskonur á­fram í stuði á heima­velli

Árni Gísli Magnússon skrifar
Amandine Justine Toi átti frábæran leik með Þórsliðinu i kvöld.
Amandine Justine Toi átti frábæran leik með Þórsliðinu i kvöld. Vísir/Jón Gautur

Þór Akureyri vann öruggan 22 stiga sigur á Íslandsmeisturum Keflavíkur í 13. umferð Subway deildar kvenna á Akureyri í kvöld. Eftir leikinn situr Þór eitt í öðru sæti og er áfram taplaust á heimavelli í vetur og hefur liðið nú sigrað sjö deildarleiki í röð.

Leikurinn fór vel af stað og skiptust liðin á að skora en gestirnir komust nokkrum stigum yfir um miðbik fyrsta leikhluta og leiddu með einu stigi að honum loknum.

Þórsstúlkur komu vel stemmdar til leiks í öðrum leikhluta og komust snemma í fimm stiga forystu en gáfu aðeins eftir og var nokkuð jafnræði með liðunum út leikhlutann og leiddu gestirnir með tveimur stigum í hálfleik, 49-51.

Í þriðja leikhluta breyttist leikurinn til muna. Þórsliðið lék á als oddi og skoruðu körfur í öllum regnbogans litum ásamt því að finna sig vel fyrir utan þriggja stiga línuna. Amandine Justine Toi hélt áfram að sjá að mestu um stigaskor gestanna og að þriðja leikhluta loknum leiddi Þór 82-68 og því komnar í kjörstöðu til að leggja Íslandsmeistarana að velli.

Í fjórða og síðasta leikhluta gáfu heimakonur ekkert eftir, heldur gáfu enn meira í, og sigruðu að lokum með hvorki meira né minna en 22 stigum. Lokatölur 109-87 Þór í vil sem er enn ósigrað á heimavelli í vetur og hafa unnið sjö deildarleiki í röð ásamt einum bikarleik.

Atvik leiksins

Það er erfitt að velja eitthvað eitt atriði en það sem var mikilvægast var byrjunin á þriðja leikhluta þar sem Þórsarar lögðu grunninn að sigrinum með frábærum kafla sem skilaði góðu forskoti.

Stjörnur og skúrkar

Hjá Þór var Amandine Justine Toi stigahæst með 37 stig og átti stórbrotinn leik og á hún samherjum sínum mikið að þakka enda liðsheildin frábær.

Hjá Keflvíkingum var Jasmine Dickey með 39 stig og mæddi kannski of mikið á henni.

Akkilesarhæll Keflavíkur liðsins var hversu illa þær fóru með boltann og vondar ákvarðanir í sókninni sem skiluðu auðveldum körfum fyrir Þór og varnarleikur liðsins verður að vera sterkari en gatasigtið sem hann var á tíðum í síðari hálfleik.

Dómararnir

Vel dæmdur leikur en nokkuð tuð kom frá báðum liðum þar sem þeim fannst dómarar vera flauta villu fyrir of lítið tilefni. Látum það liggja á milli hluta.

Stemning og umgjörð

Nokkuð vel var mætt í Höllina á Akureyri í dag, enda langt síðan eins frambærilegt körfuboltalið hefur spilað á Akureyri. Ég hvet alla til að mæta á völlinn og styðja íslenskan kvennakörfubolta.

Grindavík - Þór Ak umferð 12 Bónus kvk 2025

„Vonandi náum við að stækka hópinn og gera magnaða hluti í vor”

Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, var virkilega ánægður með frammistöðuna í dag.

„Þetta var bara frábært og eiginlega það sem ég sagði fyrir leik; hraður leikur, þær stýrðu tempóinu megnið af leiknum, en með bara smá áherslubreytingum náðum við að vinna okkur út úr því og við getum alveg spilað hratt líka,” sagði Daníel.

Eins og Daníel nefnir spilar Keflavíkurliðið hraðan körfubolta sem virtist henta spræku Þórsliði einkar vel í kvöld.

„Okkur finnst ekkert leiðinlegt að hlaupa þó við fáum sjaldan að gera það á æfingu, vegna manneklu, en þá er um að gera að njóta þess í leikjum.”

Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik tóku Þórsarar yfir leikinn fljótlega í þriðja leikhluta og litu ekki í baksýnisspegilinn eftir það. En hvað olli því að leikurinn breyttist svona skyndilega?

„Bara muna hverjar þær eru að dekka, hverjar eru skyttur og hverjar eru ekki skyttur, hvar við getum gefið smá slaka og hvar áherslan á að vera og Jasmine (Dickey) hjá þeim hélt áfram að draga vagninn varðandi stigaskor en við náðum að herða aðeins á þeim varnarlega og búa til auðveldar körfur úr því.”

Þórsarar hafa verið fáliðaðir í vetur og í dag voru einungis átta leikmenn í leikmannahópnum og er það oftar en ekki raunin í leikjum þeirra sem hefur sína kosti og galla.

„Það getur verið gott að vera fáar en það er ekkert svakalega gaman á æfingum hjá okkur núna. Við ætlum að reyna bregðast við því núna á meðan það er gluggi opinn til að bregðast við og vonandi náum við að stækka hópinn og gera magnaða hluti í vor.”

„Fyrir tímabilið var það bara að vera í topppakkanum, bara taka þetta skref fyrir skref frá því við stofnuðum liðið aftur, komast upp, halda okkur uppi og núna viljum við efri hlutann og bara heimavallarrétt í úrslitakeppni. Það er svona okkar markmið”, sagði Daníel aðspurður hvað liðið gæti farið langt í vetur.

Amandine (Justine Toi) lék á als oddi og endaði leikinn með 37 stig og Daníel var eðlilega ánægður með frammistöðu hennar sem og allra sinna leikmanna.

„Hún er bara ótrúlegur leikmaður og þær allar. Hún var í stuði í dag og það er ógeðslega gaman að þjálfa þetta lið. Ég veit ekkert hvaðan þessi 20-30 stig koma, þau koma bara frá einhverjum og þær eru allar mjög hæfar körfuboltakonur og hún bara stóð sig ógeðslega vel í dag.”

Jasmine Dickey skorðai 39 stig fyrir Keflavík í kvöld.Vísir/Diego

„Okkar sókn gengur ekki út á einn leikmann”

Elentínus Guðjón Margeirsson, þjálfari Keflavíkur, fór yfir víðan völl í viðtali eftir 22 stiga tap norðan heiða gegn Þór Akureyri.

„Ég held að það hafi verið nokkrir þættir; varnarlega gáfum við aðeins eftir og vorum að hleypa þeim í of auðveld skot og það er bara of mikið af góðum leikmönnum þarna sem þú getir ekki verið að gefa þessi færi, svo voru atriði sem við vorum að klikka á varnarlega og það gerist oft þegar vörnin klikkar að það kemur hik í sóknina og þetta tvennt saman eiginlega veldur þeim úrslitum sem við sáum hér í kvöld. Það er svo sem ekkert eitt atriði sem er hægt að benda á en gefum Þórsurum kredit, þær eru með hörkuleikmenn sem voru að skila vel hérna í kvöld. Þær eru þunnskipaðar en þær sem þær hafa eru mjög góðar en það er eins og það er, þetta er einn leikur en auðvitað er alltaf sárt að tapa svona.”

Jasmine (Dickey) skoraði 39 stig fyrir Keflavík í kvöld en Elentínus segir sóknarleik liðsins ekki eingöngu snúast um hana.

„Það var ekkert uppleggið, okkar sókn gengur ekki út á einn leikmann, við reynum að dreifa álaginu enda erum við með, að við teljum, fullt af hæfileikum um borð í hópnum þannig það var ekkert upplegið að hún væri að fá boltann og klára frekar en önnur sko, það bara æxlaðist þannig í kvöld. Við erum með leikmenn sem alla jafna skila meiru en þær gerðu í kvöld en það getur svo sem alltaf komið fyrir að leikmaður detti niður og eigi slæman dag.”

Keflavík mætir grönnum sínum í Grindavík á heimavelli í næsta leik og þurfa að bæta sinn leik fyrir komandi átök.

„Við náttúrulega erum að fá núna tvo heimaleiki í röð, fáum Grindavík í heimsókn næst og höfum núna viku til að púsla okkur saman fyrir það. Eins og ég segi þurfum við að fara aðeins betur yfir það nákvæmlega hvað er það sem bregst okkur, reyna að skoða aftur hérna í seinni hálfleik, en í grunninn er þetta bara að fá á sig 60 stig í seinni hálfleik er 20 stigum of mikið og það útskýrir í raun bara muninn sóknarlega séð. Að skora 87 stig er ekkert alslæmt, það svona alla jafna dugar til að sigra, en þú verður að hafa stoppin með til að ná sigrinum.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira