Körfubolti

Hand­tekinn fyrir að of­sækja Caitlin Clark

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Caitlin Clark er einkar vinsæl og hefur aukið áhugann á kvennakörfunni gríðarlega.
Caitlin Clark er einkar vinsæl og hefur aukið áhugann á kvennakörfunni gríðarlega. getty/Marla Aufmuth

Bandarískur maður á sextugsaldri, Michael Lewis, hefur verið kærður fyrir að ofsækja körfuboltastjörnuna Caitlin Clark.

Á sunnudaginn var Lewis handtekinn á hóteli í Indianapolis, þar sem lið Clarks, Indiana Fever, er staðsett.

Lögreglan rakti IP-tölu skilaboða sem Lewis sendi Clark á X. Hann sendi þau á tímabilinu 16. desember til 2. janúar. Skilaboðin voru ógnandi og kynferðislegs eðlis.

Clark tilkynnti skilaboðin frá Lewis til lögreglu, áður en hann kom til Indianapolis. Í skilaboðunum til hennar hafði hann sagt að hann ætlaði að kaupa miða á leik með henni og sitja fyrir aftan varamannabekkinn.

Lewis sagði lögreglu að skilaboðin væru ímyndun og grín og alls ekki ógnandi. Ef hann verður fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisdóm.

Hin 22 ára Clark er ein skærasta íþróttastjarna Bandaríkjanna og hefur aukið áhugann á kvennakörfubolta umtalsvert. Eftir frábæran háskólaferil með Iowa var hún valin nýliði ársins í WNBA á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×