Erlent

Halda á­rásum á­fram þó vopna­hlé eigi að hafa tekið gildi

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelskir hermenn á leið frá Gasaströndinni í gær.
Ísraelskir hermenn á leið frá Gasaströndinni í gær. AP/Tsafrir Abayov

Ísraelar hafa haldið loft- og stórskotaliðsárásum á Gasaströndinni áfram í morgun, þó vopnahlé hefði átt að taka gildi klukkan hálf sjö. Talsmaður Ísraelshers segir leiðtoga Hamas ekki hafa framfylgt samkomulaginu með því að afhenda ekki nöfn þeirra þriggja gísla sem átti að sleppa úr haldi seinna í dag.

Í staðinn áttu Ísraelar að sleppa töluverðum fjölda Palestínumanna úr ísraelskum fangelsum.

Daniel Hagari, áðurnefndur talsmaður, sagði í morgun að árásum myndi ekki linna fyrr en Hamas framfylgdi samkomulaginu og afhenti nöfn gíslanna.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra, segir að vopnahléið hefjist ekki fyrr en listinn sé kominn í hendur Ísraelsmanna og gaf hann út sambærilega viðvörun í gærkvöldi.

Sjá einnig: Sam­þykktu vopna­hlé en fram­tíðin ó­ljós

Í frétt AP fréttaveitunnar er haft eftir leiðtogum Hamas að listinn hafi ekki verið afhentur vegna ótilgreindra vandræða en að samkomulaginu verði framfylgt. Þá hefur fréttaveitan eftir ísraelskum embættismanni að samningamenn hafi staðhæft að listinn verði afhentur og að gíslunum verði sleppt, þó óljóst sé hvenær það verði gert.

Fram hefur komið að samkvæmt þessu þriggja fasa samkomulagi myndu Hamas-liðar sleppa fjölda gísla í skiptum fyrir það að Ísraelar sleppi Palestínumönnum úr fangelsi. Í fyrsta fasanum eiga Hamas-liðar að sleppa 33 gíslum yfir sex vikna tímabil og Ísraelar eiga að sleppa fjölmörgum Palestínumönnum úr fangelsum og þar á meðal dæmda hryðjuverkamenn.

Ísraelskir hermenn eiga einnig að hörfa frá byggðum Gasastrandarinnar á þessu tímabili og flæði neyðaraðstoðar á að aukast til muna.

Stórar spurningar eru uppi um hvað gerist eftir þetta sex vikna tímabil en viðræður um það eiga að hefjast tveimur vikum eftir að vopnahléið tekur gildi. Verði 33 gíslum sleppt á næstu sex vikum er talið að um hundrað verði áfram í haldi Hamas og að þriðjungur þeirra sé látinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×