Danir eru komnir í undanúrslit á HM þar sem þeir mæta Portúgölum í kvöld. Gidsel er markahæsti maður mótsins með 55 mörk í sjö leikjum.
Margir eru hissa á hversu öflugir Portúgalar eru orðnir í handboltanum en Gidsel telur að þeir séu komnir til að vera í hópi bestu landsliða heims.
„Þeir geta gert marga hluti vel og spila með miklu sjálfstrausti og sköpunargleði. Costa bræðurnir fara fyrir liðinu en þeir eru líka með marga hæfileikaríka leikmenn. Nú eru þeir líka að komast á þann aldur að þeir eru komnir með smá reynslu líka,“ sagði Gidsel við danska ríkisútvarpið.
„Þetta er lið sem við getum farið að venjast að sjá berjast um sæti meðal bestu liða í heimi í mörg, mörg ár til viðbótar. Næstum allir þeirra eru á aldrinum 22 til 23 ára. Þeir eru komnir til að vera,“ sagði Gidsel.
„Þetta verður mjög erfiður undanúrslitaleikur á móti liði sem hefur engu að tapa og er að spila um verðlaun í fyrsta sinn,“ sagði Gidsel.
Portúgal vann eins marks sigur á Þýskalandi, 31-30, í framlengdum leik í átta liða úrslitunum en Danir unnu tólf marka sigur á Brasilíu, 33-21, í sínum leik í átta liða úrslitum.
Portúgal og Brasilía voru saman í riðli og Portúgalar unnu leik liðanna með fjórum mörkum, 30-26.