Íslenski boltinn

ÍR vann níu FH-inga og Valskonur í stuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Natasha Moraa Anasi skoraði fyrsta markið hjá Val.
Natasha Moraa Anasi skoraði fyrsta markið hjá Val. Vísir/Diego

ÍR-ingar unnu Bestu deildar lið FH-inga í Lengjubikar karla í fótbolta í kvöld. Valskonur skoruðu sex mörk í Lengjubikar kvenna.

Bergvin Fannar Helgason tryggði ÍR 1-0 sigur á FH í Skessunni þegar hann skoraði eina mark leiksins á 37. mínútu. Alexander Kostic átti stoðsendinguna.

FH-ingar enduðu níu á móti ellefu inn á vellinum því Óttar Uni Steinbjörnsson fékk rautt spjald á 84. mínútu og Böðvar Böðvarsson fékk síðan rauða spjaldið í uppbótatíma.

Þetta var fyrsti leikur beggja liða í Lengjubikarnum í ár og FH-ingar standa uppi stigalausir, markalausir og með tvo menn á leið í bann. Sannkölluð martraðarbyrjun.

Valskonur unnu 6-0 stórsigur á nýliðum Fram. Reynsluboltarnir Natasha Moraa Anasi, Jasmín Erla Ingadóttir og Fanndís Friðriksdóttir skoruðu í fyrri hálfleik en svo tóku þær yngri við.

Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir skoraði fjórða markið snemma í síðari hálfleik en síðustu tvö skoraði varamaðurinn Arnfríður Auður Arnarsdóttir.

Arnfríður Auður er fædd árið 2008 og kom til Vals frá Gróttu fyrir tímabilið. Hún kom inn á sem varamaður á 72. mínútu og skoraði mörkin sína á 88. mínútu og í uppbótatíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×