Lífið

Með stóra drauma og svarta beltið í taekwondo

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Ísadóra Bjarkardóttir Barney ræddi við blaðamann um feril sinn, listina og lífið, hlutverkið í fjallinu, listrænt og ævintýraríkt uppeldið og margt fleira.
Ísadóra Bjarkardóttir Barney ræddi við blaðamann um feril sinn, listina og lífið, hlutverkið í fjallinu, listrænt og ævintýraríkt uppeldið og margt fleira. Vísir/Vilhelm

„Ég byrja að taka þessu mjög alvarlega í níunda bekk, þegar allir fóru að spyrja hvað ég ætlaði að gera þegar ég yrði stór,“ segir leikkonan Ísadóra Bjarkardóttir Barney. Ísadóra fer með aðalhlutverkið í íslensku kvikmyndinni Fjallið. Hún á ekki langt að sækja listræna hæfileika sína en hún er dóttir Bjarkar Guðmundsdóttur tónlistarkonu og listamannsins Matthew Barney. Blaðamaður ræddi við Ísadóru um lífið og listina.

Í MH að læra fyrir SAT prófin

Ísadóra ólst upp bæði í New York og á Íslandi og flakkaði á milli. Hún fékk sitt fyrsta kvikmyndahlutverk 17 ára gömul og hefur tekið þátt í ýmsum spennandi verkefnum. 

Meðal annars gekk hún tískupallinn fyrir MiuMiu á tískuviku í París þegar hún var tæplega tvítug, fluttist til Kaliforníu til að læra leiklist og býr nú í London þar sem hún lærir í Central Saint Martins samhliða því að hafa tekið þátt í nokkrum íslenskum verkefnum. 

Ísadóra, sem er 22 ára gömul, hefur alla tíð haldið sterkri og góðri tengingu við Ísland og eyddi miklum tíma hérlendis í skóla.

„Ég var eina önn hér á Íslandi í Hagaskóla og hina í New York og alltaf á miklu flakki. Ég útskrifast svo sautján ára gömul frá Saint Ann’s School í Brooklyn eftir að hafa verið í smá stund í MH líka,“ segir Ísadóra og bætir við að á unglingsárunum hafi samnemendur hennar í Bandaríkjunum strax farið að huga að háskólum.

Ísadóra flakkaði mikið á milli Reykjavíkur og New York. Vísir/Vilhelm

„Ég fór í gegnum allt bandaríska háskólaferlið sem er rosalegt. Það er stór partur af skólanum að hjálpa þér að sækja um í háskóla og krakkarnir fara snemma að taka þátt í alls kyns íþróttum á vegum skólans, fara í ræðulið og byrja snemma að læra fyrir SAT prófin, sem eru svona stór próf sem þarf að þreyta fyrir háskólagöngu.

Ég var í MH þegar ég var að læra fyrir þessi próf sem ég tók svo í Versló. Það var ótrúlega fyndið, ég tók þau með hópi af Íslendingum sem voru kannski að stefna á Harvard á meðan mig langaði bara að komast einhvers staðar inn í leiklist.“

Kalifornía heillaði

Leiklistaráhuginn kviknaði snemma hjá Ísadóru sem var ákveðin í því að vilja feta þá braut. Hún ákvað að lokum að fara í Pitzer College í Kaliforníu sem tilheyrir Claremont háskólunum.

„Skólinn er pínulítill og algjörlega í miðri eyðimörk. Ég var svo rosalega tilgerðarleg og góð með mig að mig langaði ekki að fara í Ivy League háskóla á Austurströndinni,“ segir Ísadóra kímin og vísar til virtustu háskóla Bandaríkjanna.

„Ég var rosalega hrifin af Kaliforníu á þessum tíma, fékk að fara að skoða skólann og fannst þetta snilld. Það var ótrúlega gaman að fá að sitja inni í tíma og leikhúsið var alveg risa stórt.“

Ísadóra ákvað að taka sér árs pásu eftir stúdentspróf og þá skall Covid á.

„Ég nýtti þann tíma til þess að fara til Belfast að skjóta kvikmyndina Northman.“

Var þetta fyrsta kvikmynd sem Ísadóra fer með hlutverk í en rithöfundurinn Sjón er meðhöfundur handritsins. Leikaraúrvalið var ekki af verri endanum, Alexander Skarsgård, Nicole Kidman, Björk og Anya Taylor-Joy svo einhverjir séu nefndir.

Staður og stund fyrir Broadway

Árið 2021 kallar námið aftur á Ísadóru sem mætir spennt í Pitzer College. Þá hefur þó margt breyst, meðal annars var maðurinn sem var yfir leiklistardeildinni látinn fara eftir MeToo bylgjuna.

„Guði sé lof bara að það var ekki einhver algjör perri yfir leiklistardeildinni þegar ég mætti en allir úr deildinni fóru með honum og það var enginn annar ráðinn í staðinn. Enskuprófessor úr skólanum hafði tekið við og hann elskaði Broadway. Það er alveg staður og stund fyrir Broadway,“ segir Ísadóra og brosir. Þó var einn kennari sem hún náði virkilega góðri tengingu við og lærði mikið af.

„Tom Lebert breytti lífi mínu. Hann kenndi aðferð sem heitir Corporeal Mime, sem er í raun aðferð sem er einhvers staðar á milli leiklistar og danshreyfinga. Líkamsvitundin svo mikilvæg í leiklistinni. 

Hvernig maður skynjar líkamann sinn, hvernig maður finnur fyrir spennunni í leikhúsinu og skynjar áhorfendur, allt flæðir svo vel. Maður er súper næmur fyrir hverri einustu hreyfingu og allt skiptir máli.“

Með kvíðahnút í flutningum

Covid setti sannarlega strik í reikninginn í náminu.

„Þetta var smá glatað en samt fyndið. Maður var með grímur og stundum var allt á netinu. En eins og allir gerðu þá dílaði maður við þetta. Ég bjó á heimavist með þremur öðrum stelpum, það var sundlaug fyrir utan og þetta var svo mikil bíómynd.“

Ísadóra fór úr Pitzer og fann sig að lokum í námi í listaháskólanum Central Saint Martins London. Hún flutti þangað ein síðastliðið haust.

„Það er svo merkilegt að ég fattaði allt í einu hvað ég var búin að vera með mikinn hnút í maganum yfir því að vera að flytja ein til London fyrst. 

Ég hélt bara að ég gæti ekki búið ein á nýjum stað. Hinar tvær tilraunirnar voru þegar ég var sautján ára, bjó ein í Belfast og var í tökum og hin var þegar ég flutti ein í eyðimörkina í Covid.

Framleiðslan á Northman hafði leigt rosa fína og nútímalega íbúð fyrir mig í Belfast sem var öll grá og köld og ekki neitt ég. Ég var þar í fjóra mánuði, ung í algjörri hormónaveislu og ekki á góðum stað.“

Finnst rigningin góð og kvíðinn farinn

Ísadóra ítrekar svo hversu mikil eyðimörk var í kringum hana þegar hún stundaði námið við Pitzer.

„Ég gleymi því ekki þegar ég var á annarri önn í skólanum með mestu heimþrá allra tíma að hugsa um Ísland. Ég sat á bekk og horfði niður á stéttina og fann bara að það var eitthvað ótrúlega rangt við umhverfið. 

Svo áttaði ég mig á því að það var enginn gróður í kringum hellurnar, það var bókstaflega allt þurrt og mér fannst bara ekkert líf vera. 

Sömuleiðis voru skógareldar í gangi og margt minnti bara á einhvern heimsenda. Ég komst að því að mér finnst rigningin góð og hún er mikilvægur hluti af mínu lífi,“ segir Ísadóra brosandi.

Rigningin nær vel til Ísadóru.Vísir/Vilhelm

London fer vel í hana og hún unir sér vel í grænu umhverfi.

„Kvíðahnúturinn í maganum mínum er alveg farinn. Ég er orðin 22 ára, ég er í námi sem hentar mér algjörlega, það er stutt og ódýrt fyrir mig að fljúga heim til Íslands og það er ekki brjálaður tímamismunur.“

Listsköpunin í blóðinu

Ísadóra fann sig í leiklistinni ung að árum og fékk fljótt að taka þátt í skólaleikritum vestanhafs.

„Við byrjuðum í leiklist í fyrsta bekk í Saint Ann’s. Ég held ég hafi verið sex ára þegar ég fékk fyrsta stóra hlutverkið mitt í leikriti sem var kannski tíu mínútur,“ segir Ísadóra og hlær. En kveikt hafði verið á neistanum.

„Ég man eftir að hafa fundið strax að þetta náði mér algjörlega. Leikhúsið er kirkja fyrir mér.

Ég byrja svo að taka þessu mjög alvarlega í níunda bekk, þegar allir fóru að spyrja hvað ég ætlaði að gera þegar ég yrði stór.“

Á unglingsárunum fór hún í gegnum einhver augnablik þar sem henni þótti vandræðalegt að gagnast við því að vilja vera fyrir framan tjöldin.

„Það er náttúrulega miklu meira kúl að segjast vilja verða ljósahönnuður eða eitthvað bak við tjöldin, að geta sagst gera þetta bara fyrir listina. Ég þorði ekki einu sinni að viðurkenna að mig langaði að verða leikstjóri, mér fannst ég þá vera að horfa of stórt á mig.

Í fjölskyldunni minni er mjög mikið af fólki sem er að skrifa sitt eigið, gera sitt eigið og listsköpunin er algjörlega þeirra. Pabbi er í myndlist og tekur rosalegar tarnir. Hann gerir eitt verkefni alveg stundum yfir heilan áratug sem er þá bíómynd, skúlptúrar, málverk og teikningar. Hann klárar alveg hverja hugmynd á heildrænan hátt og síðan kemur næsta.

Mamma er auðvitað algjör hönnuður á öllu sem hún gerir. Það var held ég einhver partur af mér með þessa ranghugmynd að performerar sem eru að flytja leikrit eða leika í bíómynd sem einhver annar gerir hafi enga enga stjórn. Það er líka mikilvægt að taka tímabil þar sem maður er með spurningarmerki á öllu.“

Verbúðin og Vigdís mikil ævintýri

Hún segist fljótt hafa áttað sig á því að það er fjarri lagi.

„Við erum sérstaklega heppin í kvikmyndum og leikhúsi hér á Íslandi. Leikararnir eru stór hluti af ferlinu, maður hefur svo margt að segja og það er alltaf samtal í gangi. 

Sérstaklega hjá Vesturporti en ég hef fengið að vera hluti af tveimur verkefnum þar, Vigdísarþáttunum og Verbúðinni. En ef þú nærð að spotta mig í Verbúðinni þá færðu verðlaun,“ segir Ísadóra og hlær.

Ísadóra hefur unnið með Vesturporti að tveimur verkefnum og fór meðal annars með hlutverk í Vigdísarþáttunum. Fyrir nokkrum árum gekk hún inn á skrifstofu þeirra og bað um að fá að aðstoða þau sama hvað verkefnið yrði.Vísir/Vilhelm

„Það var annað kvikmyndaverkefnið mitt. Ég var nýorðin átján ára og búin að frétta af því að Vesturport væri með skrifstofu úti á Granda. 

Mig langaði svo að vinna í kvikmyndum að ég ætlaði einhvern veginn að fara að því. Ég valsaði inn á skrifstofu og sagði: „Góðan daginn, ég heiti Ísadóra. Má ég hjálpa ykkur? Er eitthvað sem ég get gert? Viljiði kaffi? Er eitthvað sem ég get gert hérna?“

Á þeim tíma voru tvær vikur eftir af tökum á Verbúðinni sem hafði aðeins frestast sökum Covid. Ísadóra fékk að aðstoða og var meðal annars fengin til þess að stoppa umferð, færa til umferðarkeilur og fleira.

Á þriðja degi missum við þriðja aðstoðarleikstjórann í annað verkefni en hún var í aukaleikara vali. Ég veit ekki hvernig þeim datt þetta í hug því ég vissi ekkert hvað ég var að gera en Nanna Alfreðs sagði: „Ísadóra þú hefur tólf tíma til að sanna þig sem þriðji aðstoðarleikstjóri. Við þurfum tíu aukaleikara í fyrramálið út af senu sem var verið að skrifa áðan og við ætlum að demba þessu í gang. Gangi þér vel!“

Ég hringdi í alla sem ég þekki og fékk afa minn, bróður minn, skólafélaga úr MH og fleiri til að mæta, þeir fara í sjómannabúninga og rústa þessu. Þá fékk ég vinnuna.“

Nokkrum dögum seinna höfðu Gísli Örn og Björn Hlynur skrifað nýja senu sem átti að taka upp samdægurs og vantaði einhvern með breskan hreim í tökur sem tengdust fíkniefnasölu.

„Ég heyri í öllum Bretum sem ég veit af og fer í Brits in Iceland Facebook hópinn. Svo segir Björn Hlynur: „Dóa, getur þú ekki skellt í breskan hreim?“

Ísadóra hafði ekki mikið látið reyna á breskan hreim en sló að lokum til.

Þau vantaði stóran og massaðan mann með mér í senuna og ég fékk vin minn til liðs við mig sem hefur verið öflugur í MMA.

Byrjaði ung ómeðvitað að undirbúa ferilinn

Hvatvísin hefur alltaf fylgt Ísadóru.

„Ég held að þetta sé í blóðinu og ég hef verið svona úr æsku. Alltaf að skipuleggja allt og fá alla vinina heim. Þetta hefur verið svo góð æfing fyrir ferilinn og maður fattar einmitt oft ekki hvenær maður byrjar að æfa fyrir hann.“

Þessi eiginleiki hefur nýst Ísadóru vel sem hefur meðal annars verið með hópi fólks að skipuleggja hátíð á Borðeyri.

„Hvatvísin kemur sér vel fyrir 200 manna tónlistarhátíð sem á engan pening. Maður þarf að hringja um allt og fá alls konar lánað, plögga og redda.“

Hér má sjá stiklu úr kvikmyndinni Fjallið: 

Ísadóra hefur eytt miklum tíma á Íslandi undanfarin ár. Haustið 2023 byrjaði hún í tökum fyrir Fjallið og vorið 2024 fór hún í tökur fyrir Vigdísi. Hún segist hafa lært mikið á þessum verkefnum en tökur fyrir Fjallið voru gríðarlega krefjandi og gefandi á sama tíma.

„Ég vil ekkert vera of dramatísk en þetta var ofboðslega mikilvægt fyrir mig sem leikkonu. Vá hvað ég var stressuð í byrjun og eiginlega í gegnum allt ferlið. Fjallið var stærsta hlutverk sem ég hef fengið og þetta var mikil keyrsla.

Þú vaknar á hverjum degi að æla úr kvíða óviss með ákvarðanir sem ég var búin að taka með karakterinn minn. Maður verður bara að kyngja því og svo byrjar allt aftur næsta dag.“

Konfektkassi fyrir leikara

Hún segir að Björn Hlynur, sem fer með hlutverk föður hennar í kvikmyndinni, hafi reynst henni mjög vel og verið hennar leiðarljós.

„Við þekktumst frá því í Verbúðinni og hann var einfaldlega engill á öxlinni minni. Ásthildur Kjartansdóttir leikstjóri var líka svo yndisleg. Þetta var lítill hópur og mjög næm og falleg orka á setti. Allir voru ótrúlega þolinmóðir við mig og að lokum small þetta allt saman hjá mér.

Ég var að ögra mér rosalega mikið. Maður talar stundum um konfektkassa fyrir leikara og þetta hlutverk var algjörlega þannig. 

Móðurmissir, að fá að hrauna yfir pabba sinn, komast að því að maður sé óléttur, vera með tónlistaratriði, ástfangin, allur tilfinningaskalinn. Ef þetta hefði verið skólaverkefni þar sem pressan var minni hefði þetta verið algjör draumur frá A til Ö.“

Iðjuþjálfi breytti lífinu eftir tíu ára sálfræðimeðferð

Heimspeki líkamans hefur verið Ísadóru hugleikinn en hún er með bakgrunn í dansi og hefur lengi unnið út frá líkama sínum.

„Til að komast í karakter byrja ég með líkamsvitundinni, ferlið byrjar oftast með líkamanum. Hvernig spennist hún upp, gæti verið að hún hafi tognað fyrir tíu árum? Hvar heldur hún minningunum í líkamanum? Ég tjái mig rosa mikið með líkamanum, það fyrsta sem ég tek eftir ef ég er með stíflu í lífinu er að ég þarf að teygja einhvers staðar á mér og svo flæða tilfinningarnar út.“

Ísadóra er dugleg að checka inn í líkamann sinn.Vísir/Vilhelm

Hún hefur sömuleiðis verið dugleg að leita leiða sem virka best bæði fyrir hennar líðan og hennar listsköpun.

„Eftir að hafa verið hjá sálfræðingi í tíu ár að tala smá í hringi fór ég líka í fyrra að hitta iðjuþjálfa og það breytti lífi mínu. Við bjuggum til kort af taugakerfinu mínu, fórum í gegnum öll skynfærin og ég lærði svo ótrúlega vel inn á sjálfa mig þar.

Þannig að ef ég festist stundum, næ ekki að klára eitthvað af eða byrja á einhverju þá get ég farið í gegnum þetta kort og skynjað hvað er að trufla mig. Það er frábært fyrir mig og ég hef nýtt mér þetta í karaktervinnunni. Að hugsa: Hvernig skynjar karakterinn minn umhverfið?“

Hjólar um alla London

Ísadóra lítur björtum augum til framtíðarinnar og unir sér vel í Hackney hverfinu í London.

„Ég nýt mín rosalega vel og bý í litlu gömlu vöruhúsi sem er eitt stórt herbergi. Ég er búin að innrétta það algjörlega út frá mér og hjóla svo allt sem ég fer. Viðar Logi, listrænn stjórnandi sem hefur unnið mikið með mömmu, gaf mér hjólið sitt þegar hann flutti frá London. 

Þetta var mjög symbólískt: Gjörðu svo vel, núna er borgin þín. Þetta er lang besti ferðamátinn, mikið af brekkum en það er bara gott fyrir lærin. Ég hjóla alltaf frá austurhluta borgarinnar yfir í vesturhlutann þar sem skólinn er.“

London lífið fer vel í Ísadóru.Vísir/Vilhelm

Í skólanum lærir Ísadóra alla anga leiklistarinnar, þar á meðal sviðslist, kvikmyndir, búningahönnun gjörningalist, dans og fleira.

„Þetta er ólíkt öðrum skólum sem ég er vön þar sem maður hefur afmarkaðan heimalærdóm og skilaverkefni. Maður er mikið að vinna í hóp og svo þarf maður að sjá um sig sjálfur. Ég er að prófa flest allt sem er í boði og það er snilld.“

Mamma mjög mótandi

Tengingin við Ísland er alltaf órjúfanleg og segist Ísadóra alltaf sjá fyrir sér að koma aftur heim.

„Mínir hjartavinir eru frá tíunda bekk og fyrsta ári í MH. Við erum ennþá bestu vinir. Síðan á ég nokkra vini sem ég er enn að tala við frá New York en það er aðeins öðruvísi. Eftir útskrift úr menntaskóla í Bandaríkjunum fara allir þúsund kílómetra í burtu hingað og þangað.

Við Íslendingar erum gjarnan rosa mikið úti um allt en við þurfum alltaf að sækja ræturnar aftur heim. New York breytist svo brjálæðislega hratt að það er svo auðvelt að missa tenginguna. Ég er samt alltaf dugleg að heimsækja pabba.“

Aðspurð hvað hefur mótað hana hvað mest í lífinu nefnir Ísadóra sérstaklega hennar nánustu fjölskyldu.

„Ég á mjög sterkar minningar frá mömmu og vinkonum hennar. Að sitja lítil við borð á Mokka með mömmu og öllum göldróttu vinkonum hennar og það er bara rosalegt trúnó í gangi. 

Maður situr þarna með kakóbolla og hugsar: Vá hvað það er örugglega gaman að vera svona, eiga svona vinkonur og eiga svona sögur og líf.

Ég er svo heppin með fólkið mitt úr öllum áttum. Þetta er allt skrautlegt fólk sem er svo mikið það sjálft. Ég ólst upp næstum því sem einkabarn, Sindri stóri bróðir minn líka því aldursbilið er svo mikið. Ég fór svo mikið með mömmu, út að borða, á opnanir, tónlistarhátíðir, í stúdíóið, baksviðs og allt saman.

Ég held að mínir bestu vinir myndu lýsa mér þannig að ég eigi mjög auðvelt með að aðlaga mig að fólki og aðstæðum. Ég get farið á trúnó með næstum hverjum sem er. Það er svo æðislegt að kynnast fólki. Ég held það komi frá þessari rútínu frá barnæsku að manni var kippt með í hin ýmsu ævintýri. 

Þessi hvatvísi hefur komið út frá þessu, að vera alltaf í kringum sterka karaktera. Ég var ekkert smá heppin með uppeldi. Ég hef alltaf bara fengið hvatningu að vera sprelligosi, skrýtin, skapandi, ég sjálf og allt það. Það er algjör gjöf.“

Taekwondo, bræður og frændur

Sömuleiðis hefur íþrótt frá unglingsárunum mótað Ísadóru mikið.

„Taekwondo hefur haft mikil áhrif á mig. Ég tók því mjög alvarlega í fjögur ár, komst upp í svarta beltið og hætti.

Svo á ég bróður og bara frændur eiginlega. Ég held að kagginn í mér hafi komið út frá því.“

Ísadóra er með svarta beltið í taekwondo og hefur sömuleiðis alist mikið upp með bróður og frændum.Vísir/Vilhelm

Lífið í London er mikið ævintýri og finnur Ísadóra að borgin sé hægt og rólega að opnast fyrir henni.

„Ég sé svona örlítið glitta í þetta Reykjavíkur flæði í London. Það er vissulega mikið flóknara en sé aðeins fyrir mér hvernig maður getur smeygt sér í grasrótina í London. Annars er ég líka bara í námi og mig langar að sinna því. Allt er mjög óskrifað og spennandi,“ segir Ísadóra brosandi að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.