Handbolti

„Eins besta vörn sem við höfum spilað held ég“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Elín Klara Þorkelsdóttir skorar eitt af sjö mörkum sínum í leiknum. 
Elín Klara Þorkelsdóttir skorar eitt af sjö mörkum sínum í leiknum.  Vísir/Anton Brink

Elín Klara Þorkelsdóttir spilaði afar vel þegar Haukar lögðu Hazena Kynzvart að velli, 27-22, í seinni rimmu liðanna í átta liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handbolta að Ásvöllum í dag. Elín Klara var allt í senn svekkt, stolt og sátt að leik loknum. 

„Við mætum miklu betri til leiks hérna í dag en í leiknum úti og það er svekkjandi að hugsa til þess núna hvernig við mættum til leiks í Tékklandi. Ég er klárlega virkilega stolt af frammistöðu liðsins í þessum leik,“ sagði Elín Klara sem skoraði sjö mörk í leiknum auk þess að gefa fjölmargar stoðsendingar og fiska nokkur víti. 

„Við spiluðum fantagóða vörn í þessum leik og þetta er bara held ég ein besta vörn sem við höfum nokkurn tíma spilað, sérstaklega í fyrri hálfleik. Þær skora átta mörk í fyrri hálfleik sem er bara ansi vel vikið hjá okkur,“ sagði hún enn fremur. 

„Þristaparið var stórkostlegt og Sara Sif frábær þar fyrir aftan. Við spiluðum miklu agaðri sóknarleik en í leiknum í Tékklandi og sýndum okkar allra bestu hliðar í varnarleiknum. 

Þær mættu svo af krafti í seinni hálfleikinn og við brennum af nokkrum góðum færum. Það er dýrt og við hefðum þurft að nýta færin betur til þess að vinna leikinn með 12 mörkum eins og við þurftum að gera,“ sagði leikstjórnandinn aðspurður um hvað vantaði upp á til þess að fullkomna endurkomuna.

„Það voru margir leikmenn að spila í Evrópukeppni í fyrsta skipti þegar við lögðum af stað í keppnina og við höfum fengið dýrmæta reynslu sem við tökum með okkur í komandi verkefni. Næst á dagskrá er bikarinn og við hlökkum mikið til næstu viku. Við tökum fjölmargt jákvætt með okkar frá þessum leik inn í leikinn við Gróttu,“ sagði hún um framhaldið.  

Elín Klara er spennt fyrir komandi vefkefnum Hauka. Vísir/Anton Brink



Fleiri fréttir

Sjá meira


×