Körfubolti

Valskonur unnu meistarana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagbjört Dögg Karlsdóttir reyndist mikilvæg fyrir Val á lokamínútunum í Keflavík.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir reyndist mikilvæg fyrir Val á lokamínútunum í Keflavík. vísir/anton

Þrátt fyrir að hafa misst niður 23 stiga forskot vann Valur góðan útisigur á Íslandsmeisturum Keflavíkur, 73-77, í efri hluta Bónus deildar kvenna í körfubolta í kvöld.

Valskonur voru miklu sterkari í fyrri hálfleik og leiddu með 23 stigum að honum loknum, 24-37.

Keflvíkingar mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og unnu 3. leikhlutann, 31-10. Heimakonur náðu svo forystunni í upphafi 4. leikhluta.

Thelma Dís Ágústsdóttir kom Keflavík í 69-64 þegar fimm og hálf mínúta var eftir. Keflvíkingar skoruðu hins vegar aðeins fjögur stig eftir það gegn þrettán stigum Valskvenna.

Dagbjört Dögg Karlsdóttir jafnaði með þriggja stiga körfu þegar tvær mínútur og fimmtíu sekúndur voru eftir, 71-71, og Valur komst svo í 71-75. Jasmine Dickey minnkaði muninn í 73-75 en Dagbjört kláraði leikinn á vítalínunni. Lokatölur 73-77, Val í vil.

Alyssa Cerino skoraði átján stig fyrir Val, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Jiselle Thomas skoraði einnig átján stig fyrir gestina og Dagbjört var með fjórtán stig. Sara Líf Boama skoraði tíu stig og tók tólf fráköst.

Dickey var einu sinni sem oftar atkvæðamest hjá Keflavík með þrjátíu stig og sjö fráköst. Anna Lára Vignisdóttir skoraði tólf stig og Bríet Sif Hinriksdóttir tíu. Tvíburasystir hennar, Sara Rún, var aðeins með fimm stig í leiknum og klikkaði á sjö af níu skotum sínum.

Valur, sem hefur unnið tvo leiki í röð, er í 5. sæti deildarinnar með átján stig en Keflavík í 4. sætinu með 24 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×