Aftakaveður hefur gengið yfir Suðurnesin síðustu daga. Í gær losnuðu bátar sem lágu við Sandgerðishöfn og einn kastaðist upp á bryggjuna.
Þá var þak við það að fjúka af húsi í Sandgerði og þurfti björgunarsveit að taka þakjárnið af húsinu og koma því inn.
Við Nátthaga, rétt utan við Sandgerði, var allt á floti þegar fréttastofu bar að garði í dag. Vatn hafði flætt langt upp á land en Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ, segir mikið hafa gengið þar á.
„Það voru mjög krefjandi aðstæður hérna um helgina. Það var mikill vindur og læti. Mikill áhlaðandi samfara stórstreymi og háflæði. Allt er þetta eitruð blanda. Það flæddi víða hérna í Suðurnesjabæ með ströndinni, óvenju mikið,“ segir Magnús.

Bæjaryfirvöld hafi lengi reynt að vekja athygli á því að það þurfi að stórefla sjóflóðavarnir á svæðinu.
„Því miður hefur okkur ekki orðið nógu ágengt í því. Við höfum sýnt fram á með alls konar gögnum ákveðna hættu á ákveðnum stöðum. Það liggur allt fyrir og er að raungerast þessa dagana sem við höfum óttast og verið að benda á. Það er alveg klárt mál að það þarf að ráðast í miklu meiri sjóflóðavarnir. Þetta eru auðvitað náttúruhamfarir, ein tegund af náttúruhamförum sem áttu sér stað hér um helgina,“ segir Magnús.
Sjórinn var til vandræða á fleiri stöðum um helgina. Í Reykjavík náði flóð langt upp á land úti á Granda og varð þar mikið tjón. Í Vogum á Vatnsleysuströnd er búið að loka bryggjunni vegna tjóns.
„Við könnumst við ofanflóð, snjóflóð og aurflóð. Í raun og veru mætti skilgreina þetta á sama hátt,“ segir Magnús.