Vegagerðin var að setja upp skilti norðan við brúna með upplýsingum á íslensku og ensku til atvinnubílstjóra á stórum bílum. Annað skilti verður sett hinum megi við brúna við hringtorgið. Upplýsingarnar á skiltunum koma bæjaryfirvöldum í Árborg nokkuð á óvart þó það sé skilningur á málinu enda brúin 80 ára síðar á árinu.
„En kannski með spurningu, sem er enn þá ósvarað en það er hvort það verði settar þungatakmarkanir á brúna þegar ný brú fyrir norðan Selfoss kemur og hverjar takmarkanirnar verða. Og hvort til dæmis rútur og aðrir vörubílar verður bannað að fara í gegnum gömlu brúna,” segir Sveinn Ægir Birgisso, formaður bæjarráðs Árborgar.
Þannig að þið hafið áhyggjur af þessu?
„Já, það eru fyrirtæki, sem eru að leita til sveitarfélagsins og vilja fá lóðir og eru að spyrjast fyrir hvoru megin árinnar það eigi að vera. Þetta er spurning, sem þarf að svara út af því að þetta hefur áhrif á atvinnustarfsemi eins og ferðaþjónustu, vöruflutninga og bara innanbæjar á Selfossi,” segir Sveinn Ægir.

Og hér kemur svarið frá Vegagerðinni með þungaflutninga á núverandi brú við Selfoss þegar nýja brúin verður komin í notkun haustið 2028.
„Já það hefur verið rætt um það að takmarka þunga þannig að þessir stóru malarflutningabílar og svoleiðis bílar þeir fara ekki þarna yfir og það er bæði út af brúnni og svo líka viljum við ekki hafa hana hérna í miðbænum þessa umferð,” segir Svanur Bjarnason. umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Suðursvæði.
Þannig að þessir stóru bílar verða að fara yfir nýju brúna?
„Já, þeir verða að gera það,” segir Svanur.
En hvernig metur Svanur ástand Ölfusárbrúar í dag?
„Það er í sjálfum sér alveg ágætt. Það er aðeins komið slit í legur og svoleiðis, sem er bara eðlilegt á svona gamalli brú.”
Og engin hætta á að brúin hrynji?
„Nei, það er engin hætta á því,” segir Svanur.

