Ekki þyrfti lengur samþykki íbúa í fjölbýlishúsi fyrir hunda- og kattahaldi, jafnvel þótt íbúðir deili sameiginlegum inngangi, samkvæmt frumvarpi sem Inga Sæland, húsnæðismálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi. Markmið lagabreytingarinnar er sagt að liðka fyrir gæludýrahaldi fólks óháð efnahag og búsetu.
Félag íslenskra ofnæmis- og ónæmislækna leggst alfarið gegn frumvarpinu í umsögn sem það sendi inn um það. Það skerði verulega sjálfsögð réttindi fólks með astma og ofnæmi fyrir dýrum að vera að óþörfu útsett á eigin heimili fyrir þeim ofnæmisvaka sem valdi þeim heilsutjóni.
„Fólk með ofnæmi gegn dýrum hefur mikinn heilsufarslegan ávinning af því að verða ekki útsett fyrir ofnæmisvökum frá dýrum í híbýlum sínum eða við að ganga um híbýli sín,“ segir í umsögninni.

Getur skert lífsgæði verulega
Bent er á að ofnæmissjúkdómar hafi farið vaxandi víða um heim á undanförnum áratugum. Á Íslandi séu um sex prósent fullorðinna og níu prósent skólabarna með astma. Um fjórðungur barna og fullorðinna sé með ofnæmi, meðal annars fyrir hundum og köttum. Margir séu einnig með astma.
Fólk með ofnæmi er sagt eiga á hættu að fá astmaeinkenni sé það útsett fyrir ofnæmisvaka. Slík einkenni geti verið andþyngsli, hósti, surg fyrir brjósti og mæði. Þau geti verið alvarleg ef ofnæmisvakinn sé í einhverju magni eða þrálátur.
Ef útsetningin er ítrekuð eða viðvarandi geti einkennin verið dagleg jafnvel þótt magn vakans sé lítið. Einkenni frá augum eða nefi séu algeng og geti skert lífsgæði verulega. Einstaklingar með ofnæmi séu mismunandi næmir fyrir ofnæmisvökum og því geti sumir fengið meiri einkenni en aðrir við lítið magn af ofnæmisvaka
Dýr gefi frá sér ofnæmisvaka sem sitji á húðflögum, í hári, munnvatni, þvagi og öðrum vessum frá þeim. Oftast séu þeir ekki sýnilegir með berum augum. Ofnæmisvakarnir safnist fyrir í húsgögnum, fötum og á gólfi og geti þannig borist á milli staða, þar á meðal á milli íbúða yfir stigagang. Líkurnar séu enn meiri ef dýrin sjálf fara um stigaganga.