Greint var frá því að söngkonan væri á Íslandi í febrúar á þessu ári þar sem heppinn aðdáandi fékk mynd með stjörnunni í verslun Wasteland í miðbæ Reykjavíkur.
Nú er ljóst að stjarnan var hérlendis til að taka upp tónlistarmyndband við lagið sitt Headphones On en myndskeiðið virðist hafa verið tekið einungis á Íslandi.
Myndbandið hefst á Addison þykjast vera starfsmaður á kassa í verslun Iceland í Vesturbergi. Þar afgreiðir hún viðskiptavini búðarinnar með íslenska fánann lakkaðan á neglurnar. Í myndbandinu stendur hún einnig fyrir framan snjóskafl á bílaplani í Reykjavík.
Hún skiptir síðan um gír og sést þeysast um á baki íslensks hest með skærbleika hárkollu og velta sér upp úr sandinum á svartri strönd. Addison virðist einnig hafa heimsótt mosagrænt hraun þar sem hún syngur lagið.
Tónlistarmyndbandið má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.