Erlent

Bresk syst­kini létust í kláfferjuslysinu

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Þoka og miklir vindar gerðu björgunarsveitum erfitt fyrir. 
Þoka og miklir vindar gerðu björgunarsveitum erfitt fyrir.  EPA

Bresk systkini á sextugs- og sjötugsaldri létust þegar kláfferja hrapaði til jarðar við fjallið Minre Faito nærri borginni Napólí á Ítalíu í gær. 

Saksóknarar í sveitarfélaginu Torre Annunziata hafa opnað rannsókn á slysinu, og útiloka ekki að um manndrápsmál sé að ræða, að því er segir í frétt Guardian. Í umfjöllun breska ríkisútvarpsins segir að kláfakerfið hafi staðist öryggispróf fyrir einungis tveimur vikum.

Ísraelsk kona á þrítugsaldri lést að auki í slysinu. Bróðir hennar, sem er einnig á þrítugsaldri, slasaðist þegar kláfferjan hrapaði og liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi. 

Hinn fjórði sem lést var stýrimaður kláfferjunnar, samkvæmt umfjöllun BBC. Þjóðerni hans liggur ekki fyrir. 

Í kláfakerfinu voru einungis tveir starfræktir kláfar þar sem slysið varð. Ítalskir miðlar greindu frá því í gær að segir að vír sem annar kláfurinn hékk í hafi slitnað og kláfurinn hrapað til jarðar á sérstaklega bröttu svæði. Sextán farþegum hafi verið bjargað úr hinni ferjunni. 

Giorgia Meloni forsætisráðherra Ítalíu hefur vottað aðstandendum hinna látnu samúð sína í kjölfar slyssins. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×