Viðskipti innlent

Kaup­samningur undir­ritaður um Grósku

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
FotoJet - 2025-04-24T075519.973
Vísir

Fasteignafélagið Heimar undirritaði í gær samning um kaup á öllu hlutafé Grósku ehf. og Gróðurhússins ehf. Gróska á fasteigninga Grósku í Vatnsmýrnni, eina stærstu skrifstofubyggingu landsins.

Frá þessu er greint í kauphallartilkynningu en þar segir að samningurinn sé háður hefðbundnum skilyrðum, meðal annars samþykki Samkeppniseftirlitsins. Í tilkynningunni segir eftirfarandi um kaupin:

„Gróska á fasteignina Grósku að Bjargargötu 1, 102 Reykjavík, samfélag nýsköpunar og eina stærstu og metnaðarfyllstu skrifstofubyggingu landsins. Fasteignin er um 18.600 m2 að stærð ásamt 6.200 m2 bílakjallara með 205 stæðum, eða samtals um 24.800 m2. Gróðurhúsið rekur sprotasetur og vinnurými í fasteigninni.

Meðal leigutaka í Grósku eru leikjaframleiðandinn CCP, bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið NetApp, Vísindagarðar Háskóla Íslands, World Class, Íslandsstofa og fjölmörg önnur fyrirtæki sem eru í fararbroddi íslenskrar nýsköpunar. Samsetning leigutaka stuðlar að fjölbreyttu mannlífi í húsinu sem rímar vel við einkennisorð Heima um að „lifa, leika, starfa“.

Staðsetning Grósku í nálægð við vísindasamfélagið í Vatnsmýri er einstök og var ein helsta ástæða þess að Heimar höfðu áhuga á að eignast fasteignina. Félagið leggur áherslu á að byggja upp kjarna á nýjum svæðum sem eru líkleg til að leika lykilhlutverk í borgarþróun á komandi árum og áratugum.„

Eigendur Grósku verða stærstu hluthafar Heimar

Gengið var frá samkomulagi um helstu skilmála kaupanna í febrúar síðastliðnum. Greint var frá því að heildarvirði viðskiptanna væri metið á 13,85 milljarða króna.

Birgir Már Ragnarsson, Björgólur Thor Björgólfsson og Andri Sveinsson eiga Grósku og verða þeir stærstu eigendur fasteignafélagsins Heima eftir viðskiptin.

fast






Fleiri fréttir

Sjá meira


×