Innlent

Mun sjá eftir á­rásinni alla ævi

Jón Þór Stefánsson skrifar
Pilturinn er í dag sautján ára, en var sextán þegar atvik málsins áttu sér stað.
Pilturinn er í dag sautján ára, en var sextán þegar atvik málsins áttu sér stað. Vísir/Anton Brink

Piltur sem hefur verið dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að verða Bryndísi Klöru Birgisdóttur að bana og stinga tvö önnur ungmenni á Menningarnótt í fyrra játaði að stinga þau þrjú. Hann las yfirlýsingu í þinghaldi málsins þar sem hann sagði að um væru að ræða stærstu mistök lífs hans.

Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem hefur verið birtur á vef dómstólanna.

Þar er framburði piltsins lýst, en hann er í dag sautján ára, en var sextán þegar atvik málsins áttu sér stað.

Hann sagðist oftast bera á sér hníf, og það átt við þetta kvöld. Hann hafi ekki ætlað sér að valda öðrum skaða.

Missti sig þegar rúðan var skrúfuð upp

Umrætt kvöld sagðist hann hafa farið að fimm ungmennum sem voru inni í bíl. Hann hafi viljað ná tali af stúlku, sem mun hafa verið fyrrverandi kærasta hans. Hann vildi að hún myndi koma úr bílnum til að ræða við hann, en tvö ungmennin neitað honum um það og skrúfað bílrúðuna upp.

Þá hafi hann misst sig, barið í bílrúðuna og hún sprungið. Þá hafi hann tekið upp hnífinn. Lýsingar hans á því þegar hann stakk ungmennin voru nokkuð óljósar. Hann talaði þó um að fara í „panik“ á einhverjum tímapunkti og þá hefði hann ekki séð almennilega allan tímann hvað væri að gerast vegna myrkurs.

Síðustu stunguárásinni lýsti pilturinn þannig að einhver hefði staðið yfir honum og togað í hann. Hann taldi þá að einhver væri að ráðast á sig. Hnífinn hefði farið í þessa manneskju án orðaskipta. Hann hefði svo ýtt manneskjunni frá sér og síðan hlaupið heim. Þar hefði hann farið í sturtu til þess að róa sig en lögreglan komið skömmu síðar.

Varnir hans snerust um að hann hafi ekki ætlað sér að valda þessu mikla tjóni. Hann vildi einungis svara spurningum verjanda síns, og þar af leiðandi svaraði hann ekki fyrir misræmi í framburði sínum hjá lögreglu og svo fyrir dómi.

Hans stærstu mistök

Líkt og áður segir las drengurinn yfirlýsingu sem hann sagðist hafa samið sjálfur. Þar sagðist hann hafa samviskubit yfir því sem gerðist, sérstaklega vegna Bryndísar Klöru og fyrrverandi kærustu sinnar. Hann sagði að það særði hann hversu vondur hann hefði verið við fyrrverandi kærustuna.

Fólkið sem hefði verið þarna hefði ekki átt skilið það sem gerðist. Þetta væru hans stærstu mistök og hann myndi sjá eftir því alla ævi.

Fyrir aðalmeðferðina hefði hann hugsað mikið um atkvið og verið andvaka. Hann sagðist óska þess að hann gæti tekið aftur það sem gerðist. Það hafi ekki verið ætlun hans að ganga svona langt.

Hamstola af bræði

Dómurinn sakfelldi piltinn samkvæmt ákæru, fyrir manndráp og tvær tilraunir til manndráps.

Í niðurstöðukafla dómsins var bent að frá upphafi hafi drengurinn talað um að hann hafi ætlað sér að hitt og ræða við fyrrverandi kærustuna. Hann hafi ekki gefið mikið fyrir ítrekaðar hringingar og skilaboðasendingar til hennar, eða þá hversu oft hann hafi skoðað staðsetningu hennar í gegnum smáforrit í síma sínum.

Áður hefur verið greint frá því að hann skoðaði staðsetningu hennar hátt í 150 sinnum fyrir árásina.

Í dómnum segir að af gögnum málsins megi sjá vaxandi gremju piltsins í skilaboðasendingum til fyrrverandi kærustunnar í aðdraganda árásarinnar. Það gæfi sterka vísbendingu um huglægt ástand hans á verknaðarstundu.

Viðbrögð piltsins við því að hann hafi ekki fengið að tala við stúlkuna sýna að mati dómsins hversu hamstola hann var af bræði á verknaðarstundu. Hann hefði ekki hikað eftir að hafa brotið rúðuna og haldið ótrauður áfram. Í dómnum segir að honum hefði átt að vera ljóst að líklegustu afleiðingar gjörða hans hlytu að vera mannsbani.

Þarf að greiða milljónakröfur

Líkt og áður segir var pilturinn dæmdur í átta ára fangelsi. Lágmarksrefsing fyrir manndráp er fimm ára fangelsi, en hámarksrefsing fyrir þann sem brýtur af sér fyrir átján ára aldur er átta ára fangelsi.

Honum er gert að greiða samtals um þrettán milljónir í miskabætur og um 25 milljónir króna í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×