Fótbolti

Inter missti af gullnu tæki­færi þegar Napoli mis­steig sig

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pedro fagnar fyrir framan svekkta leikmenn Inter.
Pedro fagnar fyrir framan svekkta leikmenn Inter. Vísir/Getty

Napoli heldur efsta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar ein umferð er eftir af deildinni. Inter missti af gullnu tækifæri að ná efsta sætinu í kvöld.

Fyrir umferðina í kvöld var Napoli á toppi Serie A deildarinnar með 78 stig en Inter stigi á eftir öðru sæti. Napoli mætti Parma á útivelli og skapaði sér fá færi í leiknum. Toppliðinu tókst ekki að skora og leiknum lauk með markalausu jafntefli.

Þetta þýddi að Inter gat með sigri gegn Lazio á heimavelli náð efsta sætinu af Napoli. Yann Biseck kom Inter yfir í fyrri hálfleik en á 70. mínútu jafnaði hinn spænski Pedro metin fyrir gestina.

Hollendingurinn Denzel Dumfries kom Inter í forystu á nýjan leik tíu mínútum síðar og þegar allt stefndi í sigur Inter skoraði Pedro sitt annað mark á lokamínútu leiksins og jafnaði metin í 2-2 sem urðu lokatölur leiksins.

Napoli heldur því efsta sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina og Inter er áfram í öðru sæti. Napoli mætir Cagliari á heimavelli í lokaumferðinni en Inter á leik gegn Como á útivelli.

Þórir og Mikael Egill í byrjunarliði

Þórir Jóhann Helgason var í byrjunarliði Lecce sem vann Torino 1-0 á heimavelli. Þórir Jóhann var tekinn af velli í hálfleik en sigurmark Lecce kom í upphafi síðari hálfleiks.

Þá var Mikael Egill Ellertsson í byrjunarliði Venezia sem tapaði 3-0 gegn Cagliari. Mikael Egill var tekinn af velli á 70. mínútu í stöðunni 2-0. Bjarki Steinn Bjarkason sat allan tímann á varamannabekk Venezia.

Öll úrslit í Serie A

Roma - AC Milan 3-1

Cagliari - Venezia 3-0

Fiorentina - Bologna 3-2

Inter - Lazio 2-2

Juventus - Udinese 2-0

Lecce - Torino 1-0

Monza - Empoli 1-3

Parma - Napoli 0-0

Verona - Como 0-0




Fleiri fréttir

Sjá meira


×